139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

kostnaður við niðurfærslu skulda.

[14:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú er sem betur fer aftur hafin mikil umræða um almennar leiðréttingar lána og þá hefur heyrst að slík leiðrétting, þ.e. að færa lánin aftur að því sem þau voru áður en það varð sem kallað er forsendubrestur vegna áhrifa hrunsins, mundi kosta ríkið 220 milljarða kr. Getur hæstv. forsætisráðherra tekið undir með mér að það sé fráleitt að áætla að kostnaður upp á 220 milljarða mundi lenda á ríkinu, m.a. vegna þess að þar er gert ráð fyrir að lánin mundu ella innheimtast upp í topp, sem er auðvitað fráleitt? Einnig er ekki tekið með í reikninginn að það yrðu gríðarleg efnahagsleg áhrif af þessu sem mundu auka tekjur ríkisins og samfélagsins alls. Ekki er heldur tekið með í reikninginn að megnið eða stór hluti þessara skulda er hjá bönkunum og þegar búið að færa niðurfærslu vegna þessara lána, þ.e. við flutning lánanna úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þannig að ef menn áætla að allur þessi kostnaður lendi á ríkinu er gert ráð fyrir því að ríkið fari að borga bönkunum það sem þeir eru þegar búnir að afskrifa. Jafnframt er ekki gert ráð fyrir áhrifum á lífeyrissjóðina til framtíðar og ekki heldur á fasteignamarkaðinn og stöðu Íbúðalánasjóðs, sem auðvitað á mikið undir því að fasteignamarkaðurinn losni úr því frosti sem hann hefur verið í og falli ekki áfram. Við höfum nefnilega séð afleiðingarnar af hinu þar sem menn viðhalda lánunum út í hið óendanlega án þess að færa niður nauðsynlega niðurfærslu, eins og í Japan þar sem kostnaðurinn nú 20 árum eftir að menn hefðu betur ráðist í slíka niðurfærslu er orðinn miklu meiri en kostnaðurinn við að færa lánið niður.

Spurningin er því sú: Getur hæstv. forsætisráðherra tekið undir með mér að fráleitt sé að tala um 220 milljarða kr. kostnað á ríkið? Nú er ég ekki að leita eftir svari á borð við að það sé mikilvægt að skoða þetta. (Forseti hringir.) Það eru liðin tvö ár frá því að farið var að ræða þetta mál, það hlýtur að vera búið að skoða þetta. Ég spyr bara: Er hæstv. forsætisráðherra sammála þessum forsendum?