139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

kostnaður við niðurfærslu skulda.

[14:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hlakka til að heyra restina af svarinu en geri smáathugasemdir í millitíðinni og vil ítreka spurninguna: Er ekki hæstv. forsætisráðherra sammála mér um að það megi tala um forsendubrest og að ekki sé hægt að tala um 220 milljarða kostnað á ríkið? Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta orð, forsendubrest, sérstaklega er að ráðherrar í ríkisstjórninni, sérstaklega þáverandi viðskiptaráðherra, töluðu um forsendubrest gagnvart kröfuhöfum þegar gengisbundnu lánin voru dæmd ólögmæt. Má ekki á alveg sama hátt tala um forsendubrest gagnvart lántakendum vegna áhrifa hrunsins?

Einnig vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þau orð að það þurfi að nást samstaða allra í þinginu um þetta og er þar sérstaklega að vísa til Sjálfstæðisflokksins. Hvers vegna þarf Sjálfstæðisflokkurinn að samþykkja stefnu þessarar ríkisstjórnar? Er ekki ríkisstjórnin bara til í að hafa eigin stefnu og ef hún vill að Sjálfstæðisflokkurinn sé með í þeirri stefnu að bjóða þá Sjálfstæðisflokknum þátttöku í ríkisstjórninni?