139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

hagræðingarkrafa í heilbrigðiskerfinu.

[14:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að segja það mjög skýrt í ræðustól Alþingis að til greina komi að fara hægar í sakirnar. Ég held að það sé mjög brýnt að fara hægar í sakirnar þó að þessar tillögur séu í þeim anda sem úttektir síðustu ára hafa sýnt að sé skynsamlegt að vinna að. Ég ítreka að þær voru unnar fyrir bankahrunið, þetta hefur raunverulega ekkert með bankahrunið að gera, þetta hefur með allt aðra krafta að gera, faglega þjónustu, sérfræðinga o.s.frv., öryggið í þjónustunni. Ég tel að það sé farið of bratt í hlutina, það er farið allt of bratt í þá líka í samfélaginu núna sem er svo viðkvæmt. Að mínu mati er ekki hægt að keyra hlutina í gegn þannig að mörg störf tapist á einstaka stöðum í einu. Það er ekki forsvaranlegt. En ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að sýna þennan skilning og vona að þingið (Forseti hringir.) vinni þannig úr þessu máli að við förum hægar í sakirnar.