139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

afstaða dómsmálaráðherra til fjárlagafrumvarpsins.

[14:38]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Samhengi spurningar minnar var ekkert óljóst. Það liggur fyrir að hæstv. ráðherra styður ekki byggingu álvers í Helguvík og það liggur fyrir líka að meginforsenda fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar byggist á hagvaxtarspá sem byggir á því að farið verði í þær framkvæmdir sem við erum að tala um, framkvæmdir sem hæstv. ráðherra styður ekki. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra styður ekki meginforsendur fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar hlýt ég að spyrja hann að því hvort hann styðji fjárlagafrumvarpið. Þetta er hið einfalda samhengi hlutanna. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra treysti sér ekki til að svara spurningunni sem ég bar fram. Hann svaraði því ekki hvort hann styðji fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar eins og það liggur fyrir. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þessari spurningu í ljósi þeirra forsendna sem ég hlýt að hafa útskýrt fyrir hæstv. ráðherra þannig að hann skilji.