139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

kosning saksóknara Alþingis og varasaksóknara, skv. 13. gr. laga nr. 3 19. febr. 1963, sbr. ályktun Alþingis 28. sept. 2010 um málshöfðun gegn ráðherra.

[14:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel mér skylt að vekja athygli á því að Alþingi Íslendinga kann að vera á hálum ís með því að halda kosningu um saksóknara. Það er uppi verulegur vafi um hvort sú kosning sé lögum samkvæm. Í 13. gr. laga um landsdóm er skýrt kveðið á um að jafnframt því að ákærutillaga sé samþykkt skuli kjör saksóknara fara fram. Það er ekkert í lögunum sjálfum, lögskýringargögnum eða öðrum heimildum, sem heimilar að þingið kjósi sér saksóknara á öðru löggjafarþingi en því sem samþykkti ákæruna. Það er að mínu mati mikill ágalli á málsmeðferðinni. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að hér (Forseti hringir.) eru hugsanlega viðhöfð önnur viðbrögð en í dómskerfinu, þar er formfestan meiri og formkröfur ríkari. Haldi menn svona á málum er hætt við því að (Forseti hringir.) það kunni að leiða til frávísunar málsins þegar að meðferð þess kemur.