139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

staðan í makrílviðræðunum.

[15:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessu tækifæri til að gera þinginu grein fyrir afstöðu stjórnvalda til makrílveiðanna í dag. Ég verð að segja að ég er sammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni í hvívetna í þeim áherslum sem hann rakti og þeim góða málstað sem við höfum hér að sækja og verja. Í dag hefjast viðræður strandríkjanna fjögurra, Íslands, Evrópusambandsins, Færeyja og Noregs, um stjórn makrílveiðanna í London og ég ítreka það sem hv. þingmaður rakti, við Íslendingar erum ábyrg fiskveiðiþjóð og viljum að sjálfsögðu stuðla að því að samkomulag náist um tryggar og sjálfbærar veiðar. Forsenda þess er að allir aðilar komi að borðinu á jafnréttisgrunni og geri sér grein fyrir bæði rétti hver annars og ábyrgð.

Sem kunnugt er er forsaga málsins sú að íslensk stjórnvöld hafa ítrekað óskað eftir aðild að strandríkjaborðinu um makrílveiðar allt frá árinu 1999 en hefur af óskiljanlegum ástæðum verið meinað að taka þátt í samningaviðræðum með öðrum strandveiðiríkjum sem veiða makríl. Því hefur jafnvel verið haldið fram að það væri enginn makríll við Íslandsstrendur og þess vegna þyrftu Íslendingar ekki að eiga aðild að því borði. Spyrjum landsmenn í ár þegar makríllinn var inni á hverjum firði og hverjum vogi og fullt við hafnirnar og fjöldi fólks, ekki aðeins á bátum vítt og breitt um landið, stórum og smáum, heldur líka á bryggjunni að dorga. Það var allt full af makríl og það þarf ekki að orðlengja það. Þar sem okkur var meinuð aðild að strandríkjahópnum urðu stjórnvöld að taka einhliða ákvarðanir fyrir íslensk skip um aflahlut í makrílveiðum.

Fyrr á þessu ári viðurkenndu hin strandríkin loks að Ísland ætti sess strandríkis að því er makríl varðaði og í framhaldi af því hafa hafist umræður og viðræður strandríkjanna fjögurra. Strandríkjunum tókst ekki að ná samkomulagi um stjórn makrílveiðanna í vor og um skiptingu heildarafla sín á milli fyrir árið 2010 og af þeim sökum hafa þau öll ákveðið einhliða aflahlut fyrir þetta ár. Ísland var fyrsta ríkið er tók ákvörðun um aflahlut en hann tók m.a. mið af breyttu göngumynstri makríls, veiðum fyrri ára og miklu magni af makríl innan íslenskrar lögsögu.

Það er alveg hárrétt að framkvæmdastjórar Evrópusambandsins sendu í síðustu viku bréf til bæði sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra þar sem þeir lýstu því yfir að Ísland bæri meginábyrgð á því að heildarveiðar strandríkjanna væru meiri en samkvæmt vísindalegri ráðgjöf. Við höfum alfarið hafnað því. Jafnframt er alveg hárrétt að í þessu bréfi var að mínu mati beitt óbeinum og jafnvel beinum hótunum um að tengja óskyld mál við makrílviðræðurnar og stjórn makrílveiðanna við utanríkisviðskipti eða aðra samninga sem í gangi eru á milli ríkjanna. Þessu höfum við alfarið hafnað. Við höfum farið í gegnum hliðstæða samninga um loðnuna, síldina, kolmunnann o.s.frv. og þar sækir hvert ríki rétt sinn á grundvelli alþjóðalaga og alþjóðaréttar og undirstrikar einnig ábyrgð sína hvert og eitt og sameiginlega. Það er skylda þessara ríkja sameiginlega að komast að niðurstöðu sem bæði tryggir eðlilega skiptingu á makrílnum á milli ríkjanna en einnig sjálfbærar veiðar og eftirlit með þeim.

Þetta hefur verið og er krafa Íslendinga og þessum kröfum verður áfram haldið í þeim viðræðum sem núna eru að hefjast í London. Þar munum við halda fram rétti okkar og skyldum og krefjast þess að hin aðildarríkin geri nákvæmlega eins. Það er réttur og skylda okkar allra. Það er þess vegna ekki bara okkar, en ég heiti því að ég mun fyrir okkar hönd standa á eðlilegum og sanngjörnum rétti okkar og ábyrgð eins og við höfum gert hingað til varðandi samninga um veiðar og stjórn veiða úr sameiginlegum stofnum.

Þessu bréfi frá Evópusambandsfulltrúunum, sjávarútvegsráðherranum Mariu Damanaki, stækkunarstjóranum Stefan Füle og utanríkisviðskiptastjóranum Karel De Gucht, (Forseti hringir.) hefur verið svarað, því mótmælt og það rekið til föðurhúsanna.