139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

staðan í makrílviðræðunum.

[15:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einar K. Guðfinnssyni fyrir að hefja þessa umræðu sem er ákaflega mikilvæg. Við þurfum kannski að setja það í samhengi hvað við erum að ræða um hérna. Af hverju erum við að ræða um makrílveiðar? Af hverju er breytt umhverfi í sjónum og á það að þýða að þegar umhverfið breytist eigi þær veiðar sem verið hafa um áratugi ekkert að breytast þrátt fyrir að inn komi nýir stofnar? Kannski væri rétt að taka hér upp umræðu um skötusel, breytta hegðun loðnu og aðra þætti lífríkisins.

Þegar hér fara um stofnar er eðlilegt að við sem frjáls þjóð og sjálfstæð getum nýtt þá, það er fullkomlega eðlilegt. Við höfum stundað frjálsar veiðar þangað til að í ár var settur kvóti á þær. Það mætti alveg hugsa sér að við héldum áfram frjálsum veiðum og settum engan kvóta á. Það getur vel verið að það yrði verðmætt fyrir okkur. Það væri hins vegar ekki ábyrg stefna og þar sem við stundum ábyrga stefnu — og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirlýsingarnar í ræðustól — erum við náttúrlega ábyrgir, það erum við sem erum að óska eftir viðræðum og samningum en okkur hefur verið meinaður aðgangur að borðinu.

Við þyrftum auðvitað að ræða þetta mál í víðara samhengi og hafa meiri tíma en tvær mínútur til að ræða hvernig það er þegar stórapparatið ESB kemur hingað og hótar okkur með ýmsum hætti. Það er ekki einungis sjávarútvegsráðherra sem skrifar undir þetta bréf, heldur líka stækkunarstjóri og viðskiptastjóri. Það eru hótanir um að aðlögunarviðræðunum sem eru í gangi verði hætt. Það gerði kannski ekkert til. Það eru hótanir um Icesave og viðskiptabann. Er þetta sagan um Davíð og Golíat? Það væri kannski áhugavert að heyra afstöðu utanríkisráðherra og hvernig utanríkisþjónustan hefur tekið á þessum hótunum í garð frjálsrar og sjálfstæðrar þjóðar sem berst fyrir fullkomlega eðlilegum (Forseti hringir.) rétti sínum og ég styð hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála í því.