139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

staðan í makrílviðræðunum.

[15:26]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hæstv. utanríkisráðherra varaði þingmenn við þeim vágesti sem makríllinn er í íslenskri lögsögu og ég skal játa hér að ég eyddi hluta af sumarleyfi mínu frá Alþingi í það að bægja þessum vágesti frá. Ég fór hreinlega og kynnti mér þetta kvikindi, hvernig það væri veitt og unnið, og lagði mitt af mörkum til að styrkja stöðu Íslands í því að hafa tögl og hagldir í þeim viðræðum sem fram undan eru.

Ég fór til þessara veiða í þeirri trú og þeirri vissu að Íslendingar hefðu full og óskoruð yfirráð yfir íslenskri efnahagslögsögu, í þeirri trú og vissu að við stunduðum löglegar og ábyrgar veiðar. Sú er reyndar raunin. Hér hefur verið nefnt að megnið af toppfígúrum Evrópusambandsins hefur uppi hótanir við íslenska þjóð í þessum efnum. Ég tel það ágæta fólk ekki hafa nokkur efni til þess að ganga þannig fram gagnvart Íslandi. Það hefur sýnt það á undanförnum árum að trúverðugleiki þessa bandalags er ekki mikill við veiðistjórn, við sjáum það í þeim dæmum sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi áðan um kolmunnann. Við sjáum það á framkomu þeirra við Íslendinga, á viðræðum um makrílveiðarnar, uppsjávarveiðar og ekki síst sjáum við það í því máli sem einnig hefur verið nefnt í þessari umræðu, umgengni Skota og Íra um uppsjávarstofna sína. Rannsóknir sýna að það eru allar líkur á að þessi stofn stækki hér við land en grundvallaratriðið er að sú umræða sem hér hefur farið fram sýnir að stjórnmálamenn á Íslandi standa saman og ætla sér að standa saman í því að verja hagsmuni Íslands í þessu stóra og mikla hagsmunamáli.