139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

staðan í makrílviðræðunum.

[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðbrögðunum sem hafa komið fram hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og þingmönnum varðandi þessa umræðu.

Ég árétta það sem ég sagði áðan. Í baráttunni fyrir rétti okkar og hagsmunum eigum við vitaskuld að standa saman sem þjóð. Hér er gríðarlega mikið í húfi. Verðmætin sem við búum til úr makrílaflanum er eins og ég sagði áðan 15 milljarðar kr. Hvers vegna skyldi þetta gerast? Jú, það er þannig að fyrstu tvö árin ríktu ólympískar veiðar. Það var ekki góð fiskveiðistjórn. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvað hins vegar að á þessu ári skyldi veiðunum vera stjórnað með svipuðum hætti og við stjórnum okkar veiðum, þ.e. með úthlutun á aflakvótum. Það gerði það að verkum að þeir sem fengu þennan fiskveiðirétt höfðu alla hagsmuni af því að búa til eins mikil verðmæti úr úthlutuninni og þeim var frekast unnt.

Það var ástæðan að menn hurfu frá því að veiða í mjöl og lýsi og fóru að huga að því að búa til meiri verðmæti. Menn töldu líka að þeir vissu hvernig fiskveiðistjórninni yrði háttað: Það varð til þess, eins og ég nefndi áðan, að verðmætasköpunin jókst um tæpa 5 milljarða. Verðmætaaukning á hvert veitt kíló tvöfaldaðist. Þetta skiptir gríðarlegu máli.

Ég fagna fordæmingunni sem komið hefur fram á árásum Evrópusambandsins á okkur. Þetta er dæmalaust framferði af hálfu Evrópusambandsins að ráðast að okkur með þessum hætti. Við erum ábyrg fiskveiðiþjóð og við veiðum með lögmætum hætti. Við förum einungis fram á að fá eðlilega hlutdeild í þessum stofni og ná samkomulagi um það við aðrar þjóðir. Það er undarlegt að vita til þess að Evrópusambandið og Norðmenn hafa meinað okkur veiðar í (Forseti hringir.) heilan áratug en fagnaðarefni engu að síður að viðræður séu hafnar þó að við vitum ekki lyktir þeirra.