139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sat í gær þúsund manna fund norður á Sauðárkróki þar sem verið var að mótmæla niðurskurðaráformum ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna varðandi heilbrigðismál þar í héraðinu. Forseti sveitarstjórnarinnar Bjarni Jónsson sagði að nú værum við að upplifa mestu árás á skagfirskt samfélag frá upphafi. Þar var hann að vísa til niðurskurðarins í heilbrigðisstofnuninni, að 40 manns yrði þar sagt upp. Komið hefur fram að kannski 500 manns eða svo verði sagt upp á næsta ári í heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sem fer með byggðamálin: Hver er afstaða hennar til málsins? Studdi hún þessa útfærslu í ríkisstjórninni? Stendur hún að þessu? Telur hún að einhverjar sérstakar mótvægisaðgerðir þurfi að koma fram til að bregðast við þessu? Eða með hvaða hætti hyggst hæstv. ráðherra málaflokksins byggðamál bregðast við þeim upplýsingum sem hafa komið utan af landi og enginn hefur mér vitanlega vefengt?