139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beinir til mín spurningum sem snúa að sviði hæstv. heilbrigðisráðherra, en ég skal gjarnan segja honum að ég styð þann ramma sem lagður var fyrir ríkisstjórn og kom út úr ríkisstjórn í fjárlagafrumvarpinu. Ég styð einnig hæstv. heilbrigðisráðherra í þeirri vinnu sem fram undan er hjá honum. Hann hefur lýst því yfir að hann ætli sér að fara vandlega yfir þetta og að hugsanlega sé þarna víða of bratt farið. Ég styð hann og þingið allt í þeirri vinnu sem fram undan er og tel að menn verði að fara yfir þetta ískalt eins og allt annað. Við erum að skera mjög mikið niður. Við erum að fara í gegnum mjög erfiða tíma í ríkisfjármálunum, en tilgangurinn mun vonandi helga meðalið á endanum, þ.e. hvað rammann sjálfan varðar, þessa 33 milljarða, að við séum að ná hér niður vaxtagreiðslum ríkisins til þess að byggja upp velferðarkerfi til framtíðar litið.