139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:50]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér að taka þátt í svona umræðu eins og hv. þingmaður er að reyna að skapa hér, að stilla mér upp sem einhverjum ábyrgðarmanni fyrir því að hér þurfi að skera niður í velferðarþjónustunni. (Gripið fram í.) Ég fer með atvinnuþróunarmál. Ég fer með nýsköpunarmál í landinu og ég er að reyna að leggja hér fram tillögu um það hvernig megi efla þann málaflokk á landsbyggðinni með töluverðum fjármunum í gegnum vaxtasamninga. Ég lýsti því hér áðan að það sé vilji minn að stækka þá til að tryggja þann innri vöxt sem þar þarf að eiga sér stað. Við erum að leggja verulega fjármuni til ferðaþjónustunnar. Við réðumst í myndarlegt átak hér í sumar upp á samtals 700 millj. kr. til þess að tryggja það að ferðaþjónustan yrði ekki fyrir höggi. Ferðaþjónusta er gríðarlega ríkur þáttur í tekjum og atvinnu landsbyggðarinnar.

Virðulegi forseti, ég tek bara ekki þátt í svona skrípaleik eins og hv. þingmaður er að reyna að stilla hér upp. Við skulum reyna að ræða málin af alvöru, fara í gegnum þau verkefni (Forseti hringir.) sem fram undan eru á því sviði sem þessi ráðherra sem hér stendur ræður yfir. Það er ég að reyna að gera heiðarlega hér í þessum ræðustól, virðulegi forseti.