139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:58]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn átti við með: Þetta dugar ekki byggðunum í landinu. Eru það verkefnin sjálf eða er það greiningin á byggðaþróuninni, ástandinu og horfunum sem fylgir með þessu skjali? Það væri kannski ágætt að hv. þingmaður mundi fara yfir það.

Ég ítreka það að þetta skjal er opið til umræðu inni í þingnefnd. Ég vonast til þess að þingmenn geti tekið almennilega efnislega umræðu um það mál þar og unnið með þetta plagg. Við stöndum frammi fyrir alveg fordæmalausum aðstæðum í íslensku samfélagi. Þess vegna væru það vinnubrögð sem væru þinginu til sóma ef menn settust yfir þetta verkefni og kæmu af alvöru að borðinu og færu yfir þetta skjal, kæmu með athugasemdir og óskuðu eftir frekari gögnum. Við munum ekki liggja á liði okkar hvað það varðar.

Ég hreinlega náði því ekki áður en þetta mál var lagt fram að koma með greiningu á áhrifum núverandi fjárlagafrumvarps. Ég gerði það ekki, enda er þingið ekki búið að afgreiða það (Forseti hringir.) og það liggur ekki endanlega fyrir hvernig skiptingin á fjármununum verður.