139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:01]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er komin inn á einhverjar brautir sem ég átta mig ekki á. Þingið er núna með fjárlagafrumvarpið til umfjöllunar — þingið. Þingið mun á endanum eiga lokasvarið um það hvernig fjármunum verður skipt. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst því að hann er allur af vilja gerður til að fara yfir þennan niðurskurð á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Það verður að sjálfsögðu gert samhliða því að þá er farið yfir það hvaða áhrif þessi niðurskurður hefur í einstaka ráðuneytum, vissulega gerir hann það. Þegar hv. þingmaður segir að þetta sé marklaust plagg þegar við erum að gefa í þegar kemur að vaxtarsamningum, að það sé marklaust plagg þegar við erum að búa til sérstaka ívilnanapakka fyrir nýfjárfestingar inn á hin einstöku landsvæði, að það sé marklaust plagg að við séum hér að gefa í í ferðaþjónustu og stuðning við hana úti á landsbyggðinni, virðulegi forseti, þá hlakka ég til að heyra hennar tillögur.

Ég sagði hér hreint út: Þetta eru tillögur (Forseti hringir.) á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni. Hv. þingmaður má gjarnan blása á það að vaxtarsamningar, fjármögnun til markaðssetningar á ferðaþjónustu og ívilnanir vegna nýfjárfestinga (Forseti hringir.) úti á landi séu marklausar og verðlausar. Það getur vel verið (Forseti hringir.) en þá skulum við ræða það í nefnd (Forseti hringir.) og gera það heiðarlega. (Gripið fram í.)