139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:24]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég fékk ekki svar frá hæstv. ráðherra um það hvenær við megum vænta tillagna úr Sóknaráætlun 20/20. Ég hef ástæðu til að ætla að það muni taka einhvern tíma að vinna það mál, skiljanlega miðað við þær hugmyndir sem uppi eru.

Ég skal alveg viðurkenna að þegar forsvarsmenn þessa verkefnis bera það fram finn ég hvergi fyrir tiltrú á það, því miður. Ég hef setið tvo fundi sem fjölluðu um verkefnið í mínu ágæta landsbyggðarkjördæmi. Ég verð að játa það alveg heils hugar að ég varð ekki var við þann mikla fítonskraft eða tiltrú á verkefnið sem væri óskandi að það hefði og fengi. Ég vonast svo sannarlega til þess, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað mér, að tillögur úr sóknaráætluninni muni líta dagsins ljós fyrir 2020. En ég deili hins vegar skoðun og þakka hæstv. ráðherra fyrir þá afstöðu hennar að hún telur að ástandið eins og það er í dag kalli á tafarlaus viðbrögð stjórnvalda til þess að slá á ótta fólks, ég segi það bara þannig.

Byggðamál eru sífellt í huga mér. Staða þeirra er þannig núna að allar byggðir landsins telja að aldrei hafi stafað að þeim meiri ógn af mannavöldum hér á landi en nú um stundir og við það ástand verður ekki unað.