139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árið 2010–2013. Þetta er heilmikið plagg upp á einar 90 síður og eru 24 þeirra ályktun í afar fallegum búningi, lítur nokkuð vel út, og 75 síðna greinargerð með ýmsum fylgiskjölum. Þar er margt vel unnið og margar ítarupplýsingar sem er áhugavert að kynna sér. Við fyrstu sýn veltir maður þó fyrir sér hvaða forsendur eru fyrir ályktuninni og hvort þær séu nokkrar. Þær eru a.m.k. talsvert rangar. Hér er ekkert fjallað um að við erum í kreppu. Hér er ekkert fjallað um kostnað við það sem á að gera.

Þó ég hafi ekki kynnt mér allt til hlítar rak ég þó augun í það að í greinargerðinni, þar sem lýst er mismunandi þjónustusvæðum og forsendurnar eiga væntanlega að koma þar fram, er í kaflanum um Austurland fjallað um Höfn í Hornafirði sem þó er í Suðurkjördæmi. Maður skyldi ætla að Höfn heyrði undir það svæði þó það sé auðvitað umdeilanlegt hvar suðausturhornið endar. Í kaflanum um Höfn í Hornafirði og reyndar um Suðurland allt, Vestmannaeyjar og Suðurnes, er mikið fjallað um vaxtarsvæði þar og nauðsyn þess að efla þjónustu og bæta aðstöðu fólks til búsetu á fjölbreytilegan hátt. Það minnti mig á sögu sem ég heyrði í fyrra um Íslending sem var að flytja frá Grænlandi og ætlaði að setjast að á Íslandi, m.a. til þess að koma börnum sínum í skóla. Hann hafði farið yfir sviðið á landinu og sagði að það skipti engu máli hvar hann setti sig niður, alls staðar væri jafngott að búa, það væru góðir skólar og góð heilbrigðisþjónusta. Í kjölfarið á niðurskurðarhugmyndum ríkisstjórnarinnar getur vel verið að þessi aðili þurfi að endurskoða hug sinn hvað þetta varðar.

Mig langar til að renna yfir fyrstu kaflana í þingsályktunartillögunni og bera saman við Sóknaráætlun 20/20, eins og fleiri ræðumenn hafa reyndar gert og ég hef gert áður. Ég vil spyrja ráðherra eða fá svar við því á síðari stigum hvernig byggðaáætlunin, sem á að byggjast á aðgerðum í nýsköpun og atvinnuþróun, eigi að ríma við þá Sóknaráætlun 20/20. Ég hef spurt hæstv. heilbrigðisráðherra á fundum úti um land þar sem fjallað er um niðurskurðinn, hver sé samræmingin á milli niðurskurðarhugmyndanna og þessarar margfrægu sóknaráætlunar. Ég kem nánar að því á eftir.

Í upphafi þingsályktunartillögunnar er fjallað í átta liðum um ýmis atriði. Ég ætla að nefna þau allflest.

Hér er til að mynda rætt um atvinnustefnu og efla eigi landshluta og héraðskjarna. Eitt af markmiðunum sé að almenningur og fyrirtæki geti sótt sem mest af þjónustu í skilgreindar þjónustumiðstöðvar. Þannig náist bæði fram hagræðing og bætt þjónusta. Þá veltir maður því fyrir sér hvernig þetta samrýmist þeim hugmyndum sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu en einnig margþættan annan niðurskurð.

Í öðrum lið er fjallað um samþættingu áætlana og aukið samstarf. Á bls. 7 í þingsályktunartillögunni er talað um samþættingu opinberra áætlana. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið: Auka skilvirkni við eftirfylgni stefnumótunar með samþættingu opinberra áætlana á ýmsum sviðum.“

Og seinna:

„Áhersla verði lögð á markvissa samþættingu opinberra áætlana við fyrirhugaðar breytingar í stjórnsýslunni. Þessi aðgerð tengist einu helsta verkefni Sóknaráætlunar 20/20 og mun að líkindum verða fellt inn í þá vinnu.“

Nú spyr ég: Hvernig samrýmast niðurskurðarhugmyndirnar sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu þessum markvissu breytingum á stjórnsýslunni sem fyrirhugaðar eru og koma fram í sóknaráætluninni?

Þriðji liður er efling stoðkerfis atvinnulífs. Þar stendur á bls. 9 um eflingu stoðkerfis atvinnulífs, með leyfi forseta:

„Stoðkerfi atvinnulífsins er margbrotið og er ýmist almennt eða tengt einstökum atvinnugreinum, fagsviðum eða svæðum. Mikilvægt er að gera ítarlega úttekt á stoðkerfinu í heild og leita leiða til að gera það skilvirkara og einfaldara fyrir atvinnulífið um leið.“

Þetta er það sem fólk um allt land hrópar eftir og segir sjálft að það viti nokk um hvað það er að tala. Það hefur farið yfir og þekkir alla þessa þætti; atvinnustefnu, samþættingu, áætlun, aukið samstarf um eflingu stoðkerfis atvinnulífs. Hér er þetta sett í ákaflega fínan búning og síðan er orðið „Sóknaráætlun 20/20“ notað sem er algjörlega óskiljanlegt fyrirbæri í ljósi niðurskurðarhugmynda ríkisstjórnarinnar.

Í fjórða lið er talað um nýsköpun og sprotafyrirtæki og að stuðningur verði þrenns konar, frá Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóði og öðrum aðilum eða til að mynda í gegnum klasaverkefni eða áherslur opinberra aðila. Spyrja má: Þar sem auðveldasta aðferðin við að auka atvinnu í landinu er að hlúa að fyrirtækjum sem fyrir eru, hvar eru þau stödd í þessari þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun til næstu þriggja ára? Hvert er til að mynda hlutverk Byggðastofnunar annars vegar og Nýsköpunarsjóðs hins vegar? Hvernig er nýting fjármuna og hlutverkaskipting milli þessara tveggja stofnana? Og erum við á réttri leið hvað þetta varðar?

Síðan er fjallað um erlenda nýfjárfestingu í atvinnulífinu, eflingu ferðaþjónustu og félagsauð og í áttunda lið um eflingu menningarstarfs þar sem m.a. er rætt um menningarsamninga og vaxtarsamninga og að hægt sé að koma á víðtæku samstarfi við þekkingarsetur og menningarsetur í heimabyggð, framhaldsskóla og símenntunarstaði og efla menntun á sviði skapandi greina. Allt er þetta fallegt og rétt. Ef við byggjum í hinum fullkomna heimi væri þingsályktunartillagan sjálfsagt ágætis innlegg í vinnuna þá. En við þær aðstæður sem við búum nú við, þar sem við höfum takmarkaða fjármuni og þurfum að fara í alvarlegan niðurskurð á ýmsum sviðum hins opinbera lífs, er hjákátlegt að leggja fram þingsályktunartillögu sem hefur engar stoðir — engar stoðir — í fjárlagafrumvarpinu sem fyrir liggur á sama tíma. Þetta er eins og einhver hv. þingmaður sagði hér áðan, marklaust plagg. Þetta er froða því að þó að hún líti vel út og sé að því leytinu nytsamleg að í henni er rennt yfir jákvæðu hlutina, verður að vera eitthvert samband við fjárlagafrumvarpið og raunveruleikann sem við búum við.

Hæstv. iðnaðarráðherra svaraði fyrirspurn hv. þingmanns Einars K. Guðfinnssonar og sagði að hún styddi fjárlagafrumvarpið, þ.e. rammann. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra sem reyndar er ekki í salnum í augnablikinu en svarar því þá væntanlega á öðrum vettvangi, og alla þá þingmenn sem hafa talað hér, um þessar svokölluðu 20/20 áætlanir: Hver er samþætting þeirra við niðurskurðaráætlanir hæstv. heilbrigðisráðherra og hvernig virka þær í því sambandi? Ég verð bara að ítreka það og spyrja hæstv. ráðherra hvernig hægt sé að styðja fjárlagaramma þar sem boðaður er stórfelldur niðurskurður á heilbrigðissviði víða á landsbyggðinni og ekki síst í þeim landshlutum og héraðskjörnum sem sóknaráætlunin á að byggja upp — hvert er samræmið í þessu? Hvernig er hægt að styðja fjárlagaramma sem beinist fyrst og fremst að því að skera niður í þessum landshlutum og héraðskjörnum? Það er mér hulin ráðgáta. Það er mikil vinna í því að samþætta þingsályktunartillöguna við fjárlagafrumvarpið. Það liggur við að ég leggi til að í stað þess að tillögunni verði nú vísað til iðnaðarnefndar eins og til stendur, verði henni vísað til föðurhúsanna og hún unnin upp á nýtt.