139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að kveinka sér undan því að við hv. þingmenn sem tökum til máls um byggðaáætlun reynum að setja byggðamálin í samhengi við það sem nú er að gerast á vettvangi landsstjórnarinnar. Það sem liggur fyrir og er mat þeirra sem gleggst þekkja, forustumanna í sveitarfélögum og til að mynda forseta sveitarstjórnarinnar í Skagafirði, er að menn upplifi nú mestu árásir í manna minnum á viðkomandi samfélög sem muni hafa óafturkræf áhrif og laska samfélögin þannig að þau muni ekki verða söm á eftir.

Þegar við stöndum frammi fyrir þessu og á sama tíma er lögð fram byggðaáætlun, er auðvitað óhjákvæmilegt að málin séu rædd í því samhengi. Þá er ekki verið að víkja frá umræðu um byggðaáætlun, við erum að vekja athygli á því að byggðaáætlun hlýtur að vera svar hæstv. ríkisstjórnar við stöðunni á landsbyggðinni.

Þurfum við ekki einmitt að skoða þessi mál í samhengi hlutanna? Er það ekki það sem menn kalla eftir þegar rætt er um 20/20 áætlunina, sem er orðin eins og eftirlætisbarn ríkisstjórnarinnar sem gott er að vísa til inn í framtíðina? Er ekki einmitt 20/20 ætlað að reyna að búa til þetta samhengi? Hæstv. ráðherra vísar mjög til þess að eðlilegt sé að bíða eftir því að Sóknaráætlun 20/20 líti dagsins ljós þannig að menn sjái hvernig ríkisstjórnin ætli að taka á þeim vanda sem við er að glíma.

Það þarf enga sérstaka nýja áætlun til að sjá þetta samhengi. Það blasir við hverjum einasta manni. Það er alveg ljóst að plaggið sem við ræðum hér, tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013, er ekki svar við því ákalli sem núna berst frá byggðunum hringinn í kringum landið.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að vaxtarsamningarnir eru fínir. Við höfum mörg hver staðið að þeim í gegnum árin. Það er alveg rétt að átak í ferðaþjónustunni á árinu bar örugglega ávöxt. Gleymum því samt sem áður ekki að það kom til sem svar við þeim vanda sem upp kom í íslenskri ferðaþjónustu eftir gosið í Eyjafjallajökli. Þar var reynt að spila ákveðinn varnarleik sem sýnist á margan hátt hafa tekist vel. Það gagnast auðvitað landsbyggðinni og landinu í heild en það er ekki beint svar við byggðamálunum eins og staðan er í dag. Þess vegna dugir ekki að kveinka sér undan því, eins og hæstv. ráðherra gerði, að við segjum frá því sem eru almælt tíðindi um allt land, að byggðirnar eru í logandi ótta um framtíð sína vegna aðgerðanna sem grípa á til.

Ég veit að það eru ákveðnar ástæður og skýringar á þessu en hitt er jafnómótmælanlegt að afleiðingarnar fyrir byggðirnar sem verða fyrir þessu höggi eru gríðarlega miklar.

Ég hefði talið að ekki hefði verið úr vegi að í byggðaáætlun kæmi t.d. fram einhver áætlun um flutning opinberra starfa. Við höfum á undanförnum árum unnið markvisst í þeim efnum. Gerðar hafa verið sérstakar landshlutabundnar áætlanir, til að mynda norðaustursvæðið, norðvestursvæðið og Vestfirði og staðið hefur verið prýðilega að því að flytja opinber verkefni út á land. En setjum þetta í samhengi. Talið er að Vestfjarðaáætlunin, svo ég nefni hana sem dæmi, hafi skilað 50–60 opinberum störfum. Það munaði svo sannarlega um það. En margt bendir til þess að fjöldi opinberu starfanna sem fækka mun um á Vestfjörðum í kjölfar fjárlagafrumvarpsins slagi upp í þessa tölu. Ætli við séum ekki að tala um 30, 40, 50 störf sem munu að óbreyttu hverfa vegna áhrifa frá fjárlagafrumvarpinu. Því hefði ekki verið úr vegi að sjá í þessu plaggi hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að færa opinber störf út á landsbyggðina, að hluta til sem svar við þessu, að hluta til vegna stefnumótunarinnar sem allir flokkar hafa komið að um að færa verkefni út á land. Það er ekki orð um það. Ég vakti athygli á því þegar þessi þingsályktunartillaga kom til umræðu á síðasta þingi en hún er óbreytt, í henni er ekkert svar um þetta. Því miður ákvað meiri hluti iðnaðarnefndar að setja ekki fram neinar hugmyndir í þá veru og spurningar um það hljóta núna að vakna af tvöföldum þunga.

Svo mikil fljótaskrift er á plagginu að ekki hefur verið einu sinni hugað að eðlilegum prófarkalestri. Það er t.d. vikið að því á bls. 12 að Alþingi hafi nú til meðferðar frumvarp til laga um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar og ívilnana vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Það vill nú þannig til að frumvarpið var afgreitt á síðasta þingi, nema verið sé að vísa til einhvers frumvarps sem ekki er búið að leggja á borð þingmanna

Gallinn við þingsályktunartillöguna er að hún er ótrúlega tætingsleg. Hér er engin stefnumótun. Það er rétt að lagðar eru fram ýmsar góðar hugmyndir en þær eru ekki innlegg í byggðaumræðuna sem slíka. Úr því að ég vék að ívilnunum vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum þá er athyglisvert að það er tínt hér til, en er eitthvað sagt um það hvernig það gagnist landsbyggðinni sérstaklega? Með hvaða hætti á það að tryggja störf á landsbyggðinni eða umsvif þar? Ég tek annað dæmi. Alþjóðlegt verkefni um nýtingu koltvísýrings frá stóriðju og jarðvarmaverum. Er mótuð einhver sérstök stefna um það hvernig það verkefni eigi sérstaklega að gagnast landsbyggðinni? Ekki er hægt að sjá það í þeim texta sem fylgir þessum áformum, svo góð sem þau eru að öðru leyti.

Ég ætla að vekja athygli á tveimur, þremur atriðum á þeim fáeinu mínútum sem ég hef.

Eitt af því sem landsbyggðarmenn hafa kallað eftir er lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er hæstur. Ég sé ekki betur en að vikið sé frá þessu í áætluninni. Því er lýst yfir að ekki sé hagkvæmt að halda áfram jarðhitaleit. Vísað er í að málinu eigi að redda með varmadælum og lurkakyndingu. Þessi setning er náttúrlega orðin eitt aðhlátursefni um landsbyggðina en engu að síður gengur hún aftur í tillögunni sem við ræðum í dag. Til að bæta gráu ofan á svart sjáum við ákveðna stefnumótun, það er alveg rétt. Hæstv. ráðherra þarf að draga saman seglin í ráðuneyti sínu um 10%. Mér sýnist að framlög til jöfnunar á húshitunarkostnaði eigi hins vegar að dragast saman um 16% á milli ára, samkvæmt tölum í fjárlagafrumvarpinu. Í þessu felst auðvitað ákveðin stefnumótun, ákveðið áhersluatriði. Hér er ekki verið að hlífa þessum mikilvæga lið. Þvert á móti er hér gengið lengra í aðhaldi, niðurskurði og samdrætti heldur en hæstv. ráðherra þarf að gera að jafnaði í ráðuneyti sín. Í því felst auðvitað ákveðin stefnumótun og glittir í ákveðið viðhorf sem ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um en það verður svo að vera.

Hæstv. ráðherra hefur mjög vísað í að kalla þurfi eftir áliti fagfólks Byggðastofnunar um hvaða áhrif fjárlagafrumvarpið muni hafa á byggðirnar. Það er út af fyrir sig áhugavert að gera það en aðalatriðið er að hæstv. ríkisstjórn bregðist við ábendingunum sem þar koma fram. Með þessum orðum hlýtur hæstv. ráðherra að hafa verið að beina því til stofnunar sem undir hana heyrir að vinda sér í verkefnið. Verði það ekki gert lýsi ég mig tilbúinn til að flytja hér þingmál um að Byggðastofnun verði falið þetta.

Hæstv. ráðherra sagði líka áðan að það væri skylda stjórnvalda að svara kalli almennings úti á landsbyggðinni sem er mjög óttaslegið um sinn hag. Ég fagna þeirri yfirlýsingu en spyr hæstv. ráðherra hvernig hún muni svara þessu ákalli, hvernig áhyggjum fólksins sem telur fjárlagafrumvarpið vera árás á samfélag sitt verður svarað?

Varðandi Byggðastofnun þá kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að niðurskurður til stofnunarinnar, rekstrar þar með, verði um 21%. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún telji að niðurskurðurinn muni koma fram í starfi stofnunarinnar. Mun þetta hafa áhrif á þróunarsvið Byggðastofnunar? Er búið að útfæra það hvernig stofnunin muni aðlaga sig að lækkandi tekjum? Stofnunin er auðvitað í algjöru limbói varðandi útlán. Útlánastarfsemin mun væntanlega meira og minna leggjast af, af öðrum ástæðum sem ég mun ræða síðar þegar ég tala um þingmál sem ég hef lagt fram í þá veru.

Ég vildi biðja hæstv. ráðherra að svara því með hvaða hætti aðhaldskrafan og hagræðingar- og niðurskurðarkrafan til Byggðastofnunar muni birtast í starfi og starfsemi stofnunarinnar, hvort það muni hafa áhrif á einstakar deildir og ég spyr þá sérstaklega um þróunarsvið stofnunarinnar.