139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[17:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði, það dugar ekki að leggja bara fram einhverjar áætlanir, en þessi er lögbundin. Mér ber lagaskylda til að leggja hana fram. Því er hún lögð fram þrátt fyrir að við séum byrjuð að vinna með þau tæki og tól sem þar eru tíunduð. Þar vil ég nefna vaxtarsamningana og rammalöggjöf um ívilnanir. Hv. þingmaður spurði hvert markmiðið með þessu plaggi væri. Markmið mitt með þessu plaggi er að í staðinn fyrir að gera eins og gert hefur verið í fyrri áætlunum, að koma með innihaldslausa frasa um eflingu hins og þessa, eru hér sett fram skýr verkefni, tæki og tól til þess að koma einhverri hreyfingu af stað til atvinnuþróunar og þá ekki síst í einkageiranum úti um landið. Þar hefur líka verið misbrestur á.

Virðulegi forseti. Þessi tæki og tól eru hluti af því sem sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. ívilnanir vegna fjárfestinga. Ef ég skildi hv. þingmann rétt er það ekki svo að þetta séu eingöngu ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga. Þær eru vegna nýfjárfestinga, bæði innlendra og erlendra, þannig að það er líka von okkar að það eigi eftir að koma hreyfingu á innlendar nýfjárfestingar.

Hvað varðar tafir vegna útgáfu reglugerðar hef ég ekki heyrt það frá þessum aðilum. Þar hafa hlutirnir gengið mjög hratt fyrir sig, lögin voru samþykkt síðastliðið vor og síðan þurfa þau að fara til staðfestingar hjá ESA ásamt reglugerðinni. Því máli er að ljúka núna þessa dagana. Ég á von á því að geta undirritað reglugerðina innan örfárra daga og þar með verður það mál úr sögunni. Í framhaldinu þurfum við, ég og hv. þingmaður og fleiri, síðan að skoða hvernig við getum nýtt það tæki sem ívilnanalöggjöfin er fyrir svæði eins og Suðurnesin, eins og Vestfirði og (Forseti hringir.) Norðausturland, þar sem heldur betur þarf að gefa í og reyna að efla fjárfestingar. Þar eigum við að (Forseti hringir.) nota frumvarpið til þess að kynna Ísland sem vænlegan fjárfestingarkost.