139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[17:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek hvatningu hæstv. ráðherra fagnandi og heiti henni liðsinni mínu í þeirri baráttu að draga hingað erlenda fjárfestingu. Ég hvet hana til að halda þessa ræðu við ríkisstjórnarborðið þar sem mér hefur stundum fundist einstaka aðilar — við nefnum engin nöfn — þvælast fyrir varðandi fjárfestingu af ýmsum ástæðum.

Ég fagna því að þessi reglugerð sé á leiðinni og ég veit að beðið er eftir henni.

Hvað það varðar að ívilnunarlögin séu bæði fyrir innlenda og erlenda fjárfesta, gerði ég mér alveg grein fyrir því. Ég vil búa í samfélagi þar sem við þurfum ekki ívilnanir heldur séum við með kerfi sem hefur svo hagstæðar almennar reglur að þær dragi hingað innlenda og erlenda fjárfesta. Ég flutti jómfrúrræðu mína á þingi um það þegar Alcan í Straumsvík óskaði eftir því að losna undan 40 ára samningi og komast inn í íslenska skattkerfið. Það fannst mér jákvætt.

Varðandi áætlunina, að hún er lögbundin og það þarf að leggja hana fram, er það eitthvað sem við þurfum að leggjast yfir. Þurfum við ekki að breyta þeim lögum? Við stöndum hér og tölum um áætlun sem við ætlum að leggja fram af því að hún er lögbundin, en menn eru misjafnlega mikið sammála um að þetta sé ekki rétta tækið og við náum ekki árangri með þessum hætti. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra á sama hátt og hún hvatti mig áðan til dáða að skoða hvort okkar tíma væri ekki betur varið öðruvísi.