139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um rannsóknastarfsemi fjármálafyrirtækja. Ég kem upp til að lýsa yfir ánægju minni með þetta frumkvæði hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og þeirra þingmanna sem flytja málið með honum. Ég tel þetta afar mikilvægt mál og hafði reyndar orð á því í hruninu sjálfu, í október 2008, að guð hjálpaði Íslandi og hafði þá mestar áhyggjur af því þegar bankarnir voru komnir í ríkiseigu að við værum að fara í einhverja mestu eignatilfærslu á pólitískum grunni sem við höfum nokkurn tíma séð og höfum við þó ýmislegt séð síðastliðna áratugi. Ég tel afar mikilvægt að í þessa rannsókn verði farið.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort við séum við árslok 2009 komin inn í eitthvert svo gagnsætt kerfi að það þurfi ekki að skoða og velta við steinum á yfirstandandi ári líka. Mér þótti það sérkennilegt og þykir kannski enn að þegar öll þessi fyrirtæki lenda inni í bönkunum, sem í fyrstu eru ríkisbankar en eru síðan með mismunandi hætti og af mismunandi stærðargráðu komnir í eigu erlendra kröfuhafa, væru ekki nógu skýrar reglur um það með hvaða hætti ætti að selja þessi fyrirtæki aftur út, að það ætti að reka þau í einhvern ákveðinn tíma til að tryggja að þau færu ekki í þrot og stöðvuðust ekki, því eins og allir vita er dýrasti þátturinn í því þegar fyrirtæki verða gjaldþrota að þau stöðvast, ágæt fyrirtæki sem kannski fyrst og fremst voru of skuldsett vegna hrunsins og gengisbreytinganna.

Til að mynda í Bandaríkjunum, maður tók eftir því að þegar móðurfyrirtæki deCODE fór í þrot var strax komið tilboð í fyrirtækið en ekki var hægt að ganga frá þeirri sölu vegna þess að það þurfti að fara í opinbera sölu í ákveðinn tíma, hvort það var mánuður eða eitthvað slíkt. Ég hef eiginlega saknað þess að við höfum ekki slíkar reglur nú þegar en tel þeim mun mikilvægara að við lítum þarna aftur fyrir okkur og ég tek undir með hv. 1. flutningsmanni að við eigum ekki að festast í því fari að horfa til baka vegna þess að þetta er að gerast akkúrat núna. Við erum að skapa söguna, hvort sem við lítum til október 2008 eða dagsins í dag. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort fram til ársloka 2009 sé nægilegur tími.

Komið hefur fram að margir þingmenn óttast að þau mál sem eru flutt af þingmönnum stjórnarandstöðu eða sem sagt ekki af stjórnarþingmönnum stöðvist í nefndum og ef við lítum til sögunnar hefur það orðið hlutskipti margra ágætra rannsókna og því langar mig að nefna að fyrirhugað er — í þingmannanefndinni svokölluðu sem fjallaði um að draga lærdóm af rannsóknarskýrslunni ræddum við m.a. um að það þyrfti að breyta þingsköpum Alþingis og hæstv. forseti og forsætisnefnd hafa verið að velta því fyrir sér og ég held að það sé frumvarp á leið inn í þingið á næstunni þess efnis að sett verði á laggirnar svokölluð stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem gæti þá tekið slík mál upp að eigin frumkvæði eða frá þingmannahópum eins og þessum og mundi þá fara yfir þau mál og reyna að skapa pólitíska samstöðu um að þau verði ekki stöðvuð og haldi síðan áfram. Það er hefð fyrir þessu frá Norðurlöndunum, til að mynda Noregi þar sem slík nefnd vinnur minna flokkspólitískt heldur en kannski margar aðrar nefndir vegna þess að menn eru með því að setja svona mál í rannsókn, að reyna að hefja þau upp úr flokkspólitískum hjólförum þar sem miklu mikilvægara réttlætismál er að allir sjái hvað er að gerast og átti sig á því hvert við stefnum í slíkum málum. Mesta hættan á spillingu er tengd þessum fjármálafyrirtækjageira þegar slíkir atburðir gerast eins og hér hafa orðið frá október 2008.

Ef svo færi að þetta frumvarp dagaði uppi í þeirri nefnd sem það fer til og jafnframt að við setjum á laggirnar þessa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd — ég mundi alla vega styðja það — þá mundum við taka það mál aftur upp í þeim farvegi en ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt verkefni og við þurfum að leiða það til lykta með einum eða öðrum hætti í þinginu því að eitt af þeim verkefnum sem við glímum við er að skapa meiri réttlætiskennd úti í samfélaginu og eitt af því sem þarf að gera til að ná meira réttlæti fram er að vita meira um hvað er að gerast inni í bönkunum, sérstaklega hvað var að gerast þar á þessum tíma. Ég ítreka að ég veit ekki hvort fram til ársloka 2009 er nægilega langt tímabil en sjálfsagt verður fjallað um það í nefndinni.

Ég ítreka það að ég er stuðningsmaður þessa frumvarps.