139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson tók á ýmsu og kom með marga fleti sem ég tel þess virði að ræða. Hann nefndi að hann hefði hugsað „Guð hjálpi Íslandi“ þegar bankarnir fóru í ríkiseigu eða urðu kannski munaðarlausir. Ég held að ekki sé hægt að finna … ja, talað var um að þetta væri gósenland spillingar, menn sögðu það upphátt, sú staða sem þá var komin upp. Við skulum vona að þær grunsemdir sem voru í gangi eigi ekki við rök að styðjast. Það er bara ein leið fyrir okkur til að komast að því hvort svo sé og hún er að skoða það.

Hv. þingmaður nefndi hvort þetta hefði verið nógu gagnsætt í árslok 2009. Það er stór og mikil spurning. Ég verð að segja að ég er svo sem ekki búinn að lúslesa þá skýrslu sem kom frá eftirlitsnefndinni en mér fannst framganga nefndarmanna í hv. viðskiptanefnd, eftirlitsnefndarinnar, vera traustvekjandi í dag. En við höfum samt sem áður ekki upplýst t.d. um afskriftir og fjárhagslega endurskipulagningu. Það hefur ekki verið gert. Formaður nefndarinnar lýsti því sem sinni skoðun að hún teldi mjög mikilvægt, og hún teldi að sömu rök væru fyrir því að formaður nefndarinnar teldi það mikilvægt, að fyrirgreiðsla væri á vefnum fyrir þau fyrirtæki sem þyrftu á henni að halda. Það væri ekki síður vernd fyrir bankana og bankamennina þannig að þeir gætu sýnt mönnum fram á að allir sætu við sama borð þegar þeir kæmu og bæðu um úrlausn sinna mála. Það væri nákvæmlega það sama og þegar við upplýstum um afskipti. Ég sé í rauninni ekki hvernig menn ætla að gera þetta öðruvísi. Ég vek athygli á því að menn eru nú þegar byrjaðir að fara í ársreikninga og þeir munu halda því áfram. Við vitum að þegar koma stórfréttir, ekki með neinum skýringum, um að stóreignamenn, sem menn vita að eiga mikla fjármuni og hafa kannski farið óvarlega og gengið fullkomlega fram af þjóðinni, hafi fengið einhverja fyrirgreiðslu þá vekur það réttláta reiði hjá fólki. Ætlum við að hafa það þannig? Ætlum við að hafa það þannig að alltaf reglulega komi fréttir af slíku? Fyrst eru það þessir menn sem mest eru í umræðunni og síðan verða það, getum við sagt, smærri aðilar því að þetta verður allt dregið upp. Er það þannig að við ætlum að búa við þetta umhverfi? Eins og það er núna, umhverfi sem elur á úlfúð og tortryggni og gerir illt verra?

Hv. þingmaður spurði nefnilega um gegnsæjar og skýrar reglur. Það er svo magnað að hv. viðskiptanefnd og fleiri aðilar í þinginu sátu með forsvarsmönnum bankanna og bankasýslunnar og útbjuggu verklagsreglur sem áttu að duga þegar kom að sölu fyrirtækja.

Virðulegi forseti. Hvaða banki skyldi það vera sem tók upp þær reglur — notaði þær að vísu í nokkrum tilfellum — og henti þeim síðan út í hafsauga og seldi eina kippu af stórfyrirtækjum yfir nótt? Það var ríkisbanki, Landsbankinn, sem gerði það. Nú geta menn haft allar skoðanir á því hvað fyrirtæki í eigu lífeyrissjóðanna eigi og hvort það sé gott eða slæmt. Til hvers var verið að útbúa þessar reglur ef ekki á að fara eftir þeim? Hv. þingmaður nefndi ríki sem hefur áratugareynslu af þessu, Bandaríkin, móðurfélag deCODE, það skipti engu máli þó að tilboð kæmi, það þyrfti að vera í söluferli í einn mánuð. Í rauninni hefði átt að vera nákvæmlega sama þótt framtakssjóður lífeyrissjóðanna, sem er að vísu eign lífeyrissjóðanna og Landsbankans en það er annað mál, hefði áhuga á að kaupa þessi fyrirtæki. Það er þá bara svo, menn geta haft allar skoðanir á því. En ef menn hafa áhuga á því að kaupa, af hverju þyrftu þeir ekki að fara eftir sömu reglum og ef einhver annar hefði lýst yfir áhuga á að kaupa einhver af þessum fyrirtækjum eða öll? Það er óskiljanlegt.

Ég er sammála hv. þingmanni, við erum að skapa söguna. Það er mjög mikilvægt að þetta stöðvist ekki í nefnd. Ég hef aðeins lesið í þessu frumvarpi um þingsköpin og þessa stjórnskipuðu nefnd. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á því hvað verið væri að fara þar. Ég var ekki búinn að heyra þær röksemdir sem komu fram hjá hv. þingmanni. Málið þarf auðvitað að skoða en við þurfum ekki að bíða eftir því. Ef það er meiri hluti í hv. viðskiptanefnd klárum við bara málið. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. Lilja Mósesdóttir, formaður nefndarinnar, gangi í það. Það er auðvitað sá hv. þingmaður sem hefur mest um málið að segja.

Lokaorð hv. þingmanns voru eitthvað í þá veru að þingið ætti að skapa meiri réttlætiskennd og traust í þjóðfélaginu. Þetta frumvarp er tilkomið til að gera nákvæmlega það. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðninginn og ég heiti á okkur báða og aðra sem eru með okkur á þingi að sýna núna í verki að við viljum skapa traust í þjóðfélaginu, minnka tortryggnina og setja hlutina upp á borðið. Ef við viljum klárum við þetta mál.