139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum mjög sammála og það er vel. Við skulum vona að þannig verði það í þinginu. En til upplýsingar, af því að ég ætla ekki að endurtaka allt það sem þingmaðurinn sagði, er ég í einstökum atriðum sammála öllu sem hann sagði. Ég held að ég sé sammála hverju einasta orði sem kom fram í andsvari hans. Bara til að upplýsa það þá bað ég um fund út af Vestia-málinu fyrir nokkuð löngu og það er gleðilegt að fundur verður í hv. viðskiptanefnd á föstudaginn þar sem það mál verður tekið fyrir. Síðan er náttúrlega spurning hvað við getum gert í því.

Það er kannski líka lærdómur að menn lögðu af stað með og gengu frá lögum, m.a. um bankasýslu, virðulegi forseti, sem í rauninni gerir ekkert annað en framfylgja fyrst og fremst eigendastefnu í einum banka, þ.e. Landsbankanum. Það er heil stofnun sem kostar, ég man ekki hvað það var, 100 milljónir á ári sem hafði það eitt hlutverk að fara með eignarhlutinn í Landsbankanum og framkvæma eigendastefnu ríkisins þar. Eigendastefnan segir mjög skýrt að það eigi að fara eftir verklagsreglunum. Nú liggur fyrir að það var ekki gert. Nú geta menn sagt: Það er skynsamlegt út af einu eða öðru. Menn eiga líka að geta sagt í Bandaríkjunum: Er komið tilboð í móðurfélag deCODE? Er ekki mjög skynsamlegt ef einhver vill kaupa að fá aðilann til klára það? En menn gera það ekki. Af hverju gera menn það ekki? Vegna þess að það eru ekki gegnsæjar og réttar leikreglur. Ef við ætlum að breyta í reynd en ekki bara í orði þá verðum við að fara eftir þeim reglum sem við samþykkjum. Það er náttúrlega númer eitt. Í annan stað þurfum við að ganga í verk eins og þetta. Við skulum vona það því að nú reynir á, þetta er eitt af þeim málum sem verður prófsteinn á þingið um hvort menn séu fyrst og fremst að tala eða hvort þeir vilji (Forseti hringir.) framkvæma.