139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ágætisspurningu. Það er algerlega ljóst að við höfum lagt fram sem þingsályktunartillögu, fyrst í júní fyrra og síðan í október, tillögur sem lúta beint að heimilunum, um hvernig leysa megi skuldavandamál heimilanna.

Í meginatriðum má segja að vandamálið skiptist í tvennt, þ.e. að fólk ræður ekki við greiðslubyrði og hins vegar að höfuðstóll hefur hækkað svo mikið að skuldir eru orðnar algerlega óviðráðanlegar.

Á síðasta ári lögðum við til leiðir þar sem bent var á að lækka mætti greiðslubyrði um allt að 50% í þrjú ár og lengja lánstímann til að mæta því fólki sem ræður ekki við greiðslubyrðina. Við höfum jafnframt lagt til höfuðstólslækkanir sem felast í einhvers konar greiðsluaðlögunarúrræðum en ríkisstjórnin setti allt of þröng skilyrði, bjó til einhvers konar svipugöng þannig að sú leið er raunverulega ófær eins og við sjáum núna.

Við höfum fundað stíft síðustu vikuna til að finna lausn á þeim vandamálum sem ríkisstjórn hv. þingmanns hefur ekki getað leyst og á næstunni munum við kynna þá vinnu okkar. En aðalatriðið í þessu öllu er að til að leysa til frambúðar greiðsluvandamál heimilanna og skuldavandamál þarf að koma af stað atvinnu. Þar liggur hundurinn grafinn, þar er munurinn á vinstri og hægri mönnum á Íslandi. Hægri menn vilja koma atvinnulífinu af stað til að auka kaupmátt til að fólk geti staðið undir greiðslubyrðinni.