139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Mig langar aðeins að bæta við umræðuna sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hóf áðan og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn í. Við höfum orðið vitni að því að allt í kringum landið hafa verið haldnir fjölmennir fundir þar sem fjöldi fólks hefur komið saman, fyllt íþróttahús, skóla og annað. Þessir fundir eru samsvarandi því að tugir þúsunda manns kæmu saman á fundi í Reykjavík. Niðurskurðartillögurnar sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu og eru til vinnslu í fjárlaganefnd eru of brattar hvað heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni snertir.

Við skulum ekki gleyma því sem hv. þingmaður og flokkssystir hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar talaði um í gær að verið er að keyra jákvæða stefnu og jákvæða þróun, en farið er of bratt. Þessu er ég algjörlega ósammála. Við þurfum að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Hér bera allir flokkar ábyrgð. Þessi stefna hefur verið keyrð allt frá því Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru við völd. Við þurfum að snúa ofan af þessari stefnu.

Verkefni fjárlaganefndar er skýrt. Það þarf að velta við hverjum steini. Það er ekkert athugavert þó að fjárlaganefnd geri það. Það er ekki nóg að gera breytingartillögur handa landsbyggðinni til eins árs. Það þarf að gjörbylta þessari stefnu. Ég hef kallað eftir því að allir þingmenn sama hvort þeir búa í Reykjavík og fara aldrei upp fyrir Hvalfjörð nema um verslunarmannahelgar, eða hvort þeir búa úti á landi, snúi bökum saman fyrir landsbyggðina. Velti við hverjum steini og leiðrétti þessar tillögur. (Gripið fram í.)