139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í fréttatilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í júlí stóð m.a., með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að úthafsrækjuveiðar verði gefnar frjálsar á fiskveiðiárinu 2010/2011, þar sem ekki hefur á neinu fiskveiðiári frá fiskveiðiárinu 2000/2001 verið aflað upp í útgefið aflamark.“

Er það svo, virðulegi forseti? Aflinn á síðasta fiskveiðiári var rúm 7 þús. tonn, eða um 80–85% af aflaheimildunum, þ.e. umfram heildaraflamark, en ekki alveg það sem til var í geymslu frá fyrri árum. Ef maður skoðar þessi ár sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vitnar þarna í er veiðin af aflaheimildum sem svarar 77,2% árin 2000/2001, fer að vísu niður í 6,2% árin 2005/2006, sem var mjög sérstakt ár, en upp í 80–85% á síðasta ári. Þess vegna er sú ákvörðun sem tekin hefur verið að mínu mati vægast sagt undarleg, að gefa veiðar frjálsar á þessu fiskveiðiári út frá þessum forsendum.

Nú á sem sagt að hefja, miðað við þetta, nokkurs konar ólympískar rækjuveiðar, kappveiðar líkt og gert er í strandveiðunum þar sem fyrstir koma fyrstir fá, hrúga inn aflanum, rækjunni, sem hefur það í för með sér að afurðaverð mun lækka vegna mikils framboðs, að maður tali nú ekki um að starfsöryggi þeirra sem vinna við rækju minnkar eða jafnvel hverfur.

Þetta er málið í hnotskurn og þess vegna hef ég óskað eftir þessari umræðu utan dagskrár til að gera þetta að umræðuefni og fá hér fram sjónarmið hvað þetta varðar, enda hefur það komið fram að viðbrögð margra eru mjög gagnrýnin á þetta, alveg sama hvort við erum að tala um útgerðarfyrirtæki, bæjarfélög, vinnslufyrirtæki eða annað. Að sjálfsögðu finnast svo aðrir sem fagna þessu. Útgerðarfyrirtæki og veiðifyrirtæki eru líka sölufyrirtæki, þau selja rækjuna úr landi og eru þess vegna markaðsfyrirtæki. Þetta er mikilvæg starfsemi, rækjuvinnslan, á nokkrum stöðum á landinu.

Þrátt fyrir ýmsar skoðanir okkar á fiskveiðistjórnarkerfinu í heild sinni held ég að aflamarkaðskerfið sé eitt hið jákvæðasta og besta við það, þar sem úthlutað er afla fyrir kvótaárið og útgerðin fer þá í að skipuleggja veiðar allt árið, með tilliti til markaðsmála og til vinnuskipulags. Markaðurinn verður að geta treyst á jafnt framboð allt árið og það gefur okkur Íslendingum líka meira í aðra hönd. Það er vel þekkt, alveg sama hvort það er sala á rækju eða einhverju öðru, að mikið framboð á vöru verður til þess að lækka verð. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, þessi ákvörðun misráðin. Fyrir utan það að eins og kemur fram í gögnum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þarf lagabreytingu fyrir þessari ákvörðun og hún er ekki enn komin inn til þings. Hún hefur ekki verið tekin.

Þess vegna finnst mér mjög á gráu svæði að gera þetta nú. Það er líka mjög undarlegt að gera þetta núna þegar meira er farið að veiðast, í stað þess að hafa reynt það árin 2005/2006 ef menn hefðu viljað prófa þetta atriði. Þess vegna tek ég þetta hér til umræðu, annars vegar út frá lagalegu hliðinni, að það eigi eftir að koma með lagafrumvarp inn, hins vegar út frá markaðsforsendum og vinnuskipulagi þar sem ég tel að við séum að fara inn á vitlausa braut hvað þetta varðar vegna þess hvernig þessar ólympísku veiðar verða. Það mun leiða af sér svona frjálsar veiðar, að menn munu fara í kappveiðar. Þess vegna er það sem ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þriggja spurninga: Hvað á að veiða mikið? Hvert verður aflamarkið? Hvað má veiða?

Hvað verður gert þegar búið er að veiða þau tonn sem hæstv. ráðherra gefur út? Við skulum segja bara 7 þús. tonn eins og hefur verið. Á þá að lyfta upp flaggi og segja: Nú er búið að veiða allt sem má veiða á þessu fiskveiðiári, nú verðum við að stöðva veiðarnar yfir í næstu viku?

Virðulegi forseti. Ég óska eftir skýrum svörum frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra varðandi þessar þrjár spurningar sem ég hef sett fram auk þess sem ég bíð eftir því að heyra viðbrögð við þeim atriðum sem ég hef gert að umtalsefni.