139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Kristján Möller hóf hér umræðu um málefni úthafsrækjuveiða og þá ákvörðun að ekki var gefið út heildaraflamark fyrir úthafsrækju í sumar eins og gert var fyrir aðrar tegundir sem hafa verið bundnar í aflamarki. Til að útskýra grunn þessarar ákvörðunar verður að skoða þetta mál í sögulegu samhengi.

Aflaheimildir í úthafsrækju hafa ekki verið nýttar að fullu síðan á fiskveiðiárinu 1999/2000. Á árinu 2000/2001 var nýtingin á útgefnu aflamarki 77% en fór síðan niður í 6% á fiskveiðiárinu 2005/2006, mjakast síðan á nokkrum árum upp í 39% fiskveiðiárið 2008/2009 en á fiskveiðiárinu 2009/2010 er nýtingin skyndilega komin upp í 81% sé tekið mið af flutningi milli ára en um 100% sé miðað við útgefnar aflaheimildir innan ársins. Útgerðaraðilar hafa komið fram með skýringar á því hvers vegna staðan er þannig að aflaheimildir hafi ekki verið nýttar betur á þessu árabili. Skýringarnar fela það í sér að ekki hafi svarað kostnaði að stunda veiðar á úthafsrækju á þessu tímabili og skal í sjálfu sér ekki lagt mat á það hér.

Úthafsrækjukvótinn hefur undanfarin ár verið 7 þús. tonn auk þess sem leyfilegt hefur verið að flytja á milli ára hluta þess aflamarks sem ekki hefur verið veiddur. Jafnframt var á þessu tímabili heimilt að nýta ónotaðar aflaheimildir til að auka tilfærslumöguleika í öðrum tegundum ásamt því ákvæði laganna að veiðigjald hafi verið sett á tímabundnar undanþágur fyrir aflaheimildir í úthafsrækju. Bæði þessi ákvæði hafa nú verið felld úr gildi.

Sé litið á þær útgerðir sem á síðasta ári skiluðu mestum afla á land kemur í ljós að það eru sjaldnast þær sem hafa fengið aflaheimildunum úthlutað. Tvö skip hafa borið mest af rækju að landi á þessu ári en útgerðir þeirra réðu yfir sáralitlum hluta af rækjukvótanum í upphafi fiskveiðiársins. Annað þeirra landaði alls rúmum þúsund tonnum af úthafsrækju á síðasta fiskveiðiári. Báturinn fékk aðeins úthlutað um 100 tonnum svo útgerðin hefur fengið um 900 tonn af rækjukvóta leigðan frá öðrum. Til eru fyrirtæki í rækju sem leigt hafa til sín um 900 tonn af rækjukvóta á árinu en hafa aðeins fengið úthlutaðan rúman þriðjung ofan á það. Fyrirtækin stunda þó þrátt fyrir allt nær engar rækjuveiðar.

Það má nefna að annar aflahæsti rækjuveiðitogari landsins landar til vinnslu í Kampa á Ísafirði. Útgerðin Birnir ehf. á meiri hlutann í rækjuvinnslunni Kampa á móti Byggðastofnun og nokkrum fleiri. Birnir ehf. gerir út tvo rækjutogara. Annar fékk engan rækjukvóta á þessu ári og hinn aðeins um 25 tonn. En togararnir hafa landað 1.306 tonnum af rækju á síðasta fiskveiðiári. Viðbótarkvótinn hefur að mestu verið fenginn frá fyrirtæki í næsta nágrenni gegn framsali eða leigu.

Mörg fleiri rækjuskip leigja til sín næstum allan þann afla sem þau veiða. Það má t.d. nefna skip sem er í eigu Samherja og á því skipi eru 887 tonn af úthafsrækju. Á síðasta fiskveiðiári veiddi þetta skip enga rækju. Ýmis fleiri slík dæmi má nefna eins og Vísi, Ísfélagið, Öskju, Gunnvöru, Skinney–Þinganes. Lauslega áætlað hafa þessi fyrirtæki yfir að ráða tæpum 40% af aflaheimildum sem þau veiða ekki. Spyrja má sig hvort þau taki ekki leigugjald fyrir aflaheimildirnar. Jú, auðvitað og þeim mun meira sem veiðarnar ganga betur. Ég spyr mig: Er þetta þá ekki óþarfaskattur á viðkvæma veiði eins og rækjuveiðarnar eru?

Þá má nefna að Brim ræður einnig yfir um 800 tonnum af úthafsrækjukvóta. Fyrirtækið veiðir sjálft sinn kvóta og hefur sameinað hann á eitt skip öfugt við það sem sumar aðrar stórútgerðir hafa gert.

Ég get nefnt það hér að Byggðastofnun er með átta fyrirtæki tengd rækjuútgerð og vinnslu í viðskiptum. Þar af eru fjögur fyrirtæki þar sem einu tryggingarnar á bak við lánin eru veð í úthafsrækjukvóta. Það er alveg hárrétt. Samkvæmt Fiskistofu hafa þrjú þessara fyrirtækja ekkert aflamark í rækju þar sem engin fiskiskip eru í eigu fyrirtækjanna og hefur rækjukvóti þeirra verið vistaður á skipum annarra lögaðila sem velta má fyrir sér hvort teljist ásættanlegt.

Frú forseti. Ég hafna því alfarið að sú ákvörðun að gefa ekki út heildaraflamark í úthafsrækju sé ólögleg. Fyrir henni eru veigamikil rök eins og hér hefur verið rakið. Ég tel að þessi aðgerð eigi fyrst og fremst að vera hvatning til þess að rækjan sé veidd og unnin en ekki notuð til að veðsetja hana og veiða ekki eins og hefur verið undanfarin ár. Það var vissulega fagnaðarefni að rækjuveiði skyldi vera aukin á þessu ári enda hafði verið ljóst í nokkurn tíma að hún (Forseti hringir.) mundi verða tekin úr kvóta eins og raunin varð síðan á. Það eru alvörurækjuveiðimenn sem eiga veiða rækjuna, frú forseti.