139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Röksemdir hæstv. ráðherra standast náttúrlega enga skoðun þar sem hann fylgir eftir þeirri fádæma ákvörðun sinni að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar. Það liggur fyrir að 2. september kom fram lögfræðiálit frá Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Lex lögmönnum, þar sem mjög sterk rök eru færð fyrir því að ráðherra sé að brjóta lög. Það var fullyrt af hálfu fulltrúa ráðuneytisins á fundi sjávarútvegsnefndar að þann 7. september mundi liggja fyrir skoðun ráðuneytisins á því áliti. Það kom fram á fundi aftur í sömu nefnd þann 20. september að ráðuneytið hefði ekki óskað eftir skriflegu lögfræðiáliti til að rökstyðja sinn málstað. Ég veit ekki til þess að það sé komið fram enn þá. Eftir stendur því að mjög sterk rök hníga að því að ráðherra sé að brjóta lög með ákvörðunum sínum.

Staða rækjustofnsins er mjög veik. Menn hafa ýjað að því í þessari umræðu að full ástæða væri til að veiða það sem geymt væri frá síðustu árum og þess vegna væri hægt að veiða miklu meira á þessu fiskveiðiári en þessi 7 þús. tonn. Nýleg yfirlýsing Hafrannsóknastofnunar frá síðustu viku gefur okkur til kynna að svo er ekki, ráðgjöf þeirra stendur, 7 þús. tonn.

Það þarf ekki nema tvo togara til að fara í þær ólympísku veiðar sem ráðherrann boðar nú til að taka um helminginn af þessum afla í svona tíu sjóferðum, 3.500 tonn. Þá sjá menn hvert stefnir. Þetta hefur mjög mikil áhrif á markaðsaðstæður. Þetta er þannig að við höfum verið þekkt fyrir sjálfbæra nýtingu á okkar sjávarauðlind. Núna eru keppinautar okkar á rækjumörkuðum erlendis farnir að veifa umhverfismerkjum sem þeir hafa á sínum veiðum og benda kaupendum á að Íslendingar stundi hér ósjálfbærar veiðar. Og það er alveg magnað að sá flokkur sem kennir sig við sjálfbærni í nýtingu auðlindanna skuli standa fyrir þessu. Markaðsaðstæður eru erfiðar og þetta mun eyðileggja fyrir okkur það mikla markaðsstarf sem hefur verið unnið á síðustu árum. Þetta smitar síðan yfir á aðra stofna, virðulegi forseti. Þetta smitar yfir á aðrar veiðar (Forseti hringir.) og setur ljótan blett á fiskveiðar okkar Íslendinga.