139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég lýsi mig algerlega ósammála síðasta ræðumanni og flestum sem hér hafa talað. Úthafsrækjustofninn er vannýttur nytjastofn og hefur verið það um margra ára skeið. Sjávarútvegsráðherra ber því ekki skylda til að takmarka veiðar á úthafsrækju. Eiginlega væri mun réttara að segja að ráðherrann væri skyldugur til að gefa veiðarnar frjálsar þegar nytjastofnar eru vannýttir eins og kemur fram í 3. og 8. gr. gildandi fiskveiðistjórnarlaga.

Í 3. gr. segir að ráðherra skuli ákveða þann heildarafla sem veiða má úr nytjastofnum sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Í 8. gr. segir að veiðar á þeim tegundum sem ekki sæta aflatakmörkun séu frjálsar öllum þeim skipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni. Það er þess vegna löngu tímabært að gefa þessar veiðar frjálsar og hefði í raun mátt gerast fyrr og væri full ástæða til að gera það í fleiri tegundum, t.d. gagnvart ufsanum í krókaaflamarkskerfinu en á síðasta ári var einungis veiddur helmingur þess magns sem gefið var út til krókabáta í ufsa.

Kostirnir við frjálsar veiðar á vannýttum tegundum eru ótvíræðir. Atvinna eykst, fleiri komast til veiða, gjaldeyristekjur aukast, það verður eðlilegri verðmyndun á hráefni með frjálsari samkeppni og þjóðarbúið græðir. Enginn tapar, fyrirkomulag veiðanna færist nær markmiðum fiskveiðistjórnarlaganna.

Á þeim erfiðu tímum sem nú fara í hönd með þyngstu fjárlög allra tíma í þinginu ættum við að fagna hverri glufu sem myndast til eðlilegrar tekjumyndunar og atvinnusköpunar í landinu fremur en að karpa um misvísandi lögskýringar. Það er enginn bættari, frú forseti, með því að bátar liggi bundnir við bryggju eða fullveðja fólk sitji með hendur í skauti atvinnu- og aðgerðalaust meðan verðmætin liggja í sjónum fram undan landsteinum ónotuð.