139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[15:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmenn skauta flestir fram hjá raunveruleikanum. Er t.d. eðlilegt að hafa 2.600 tonna rækjuveiðiheimild hjá útgerðum sem veiða ekki neitt? Er það eðlileg skipan mála að við þessar aðstæður og yfirleitt að rækjuaflaheimildirnar séu bara nýttar til veðsetningar en ekki til veiða? Það er ekki eðlilegt.

Þessi ráðstöfun er til eins árs. (Gripið fram í: Hvað á að veiða mikið?) Ég held að enginn geti nýtt það skipulag sem verið hefur á þessum rækjuveiðum. Það er makalaust ef menn geta varið það að rækjuveiðiheimildir séu bara hafðar til þess að veðsetja þær en ekki til að veiða þær. (JónG: Þetta er rangt.)

Nú er hægt að veiða þessa rækju, mikil lifandis ósköp, vinna hana (Gripið fram í.) og nýta þær heimildir sem hér eru. Ég bendi á og ítreka að þessi ákvörðun, þessi úthlutun er til ráðstöfunar til eins árs og við sjáum þá hvernig það þróast. Ef við horfum til rækjuveiðanna á undanförnum árum eru ekki (Gripið fram í.) líkur til að farið verði langt fram úr því sem ráðgert hefur verið. Við munum fylgjast með þeim málum. En ég bendi á að heimildir til veiðistýringar eru takmarkaðar, ef þær eru bundnar í aflamarki ber að deila þeim á skip.

Það verður fylgst grannt með þessum málum, hvernig þau þróast. En ég ítreka að hluti af þeirri siðrænu umgengni um náttúruauðlindina, um fiskinn, er að þeir sem hafa aflaheimildirnar nýti þær til veiða.