139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svörin.

Ég fór fyrir stuttu síðan í heimsókn til sýslumannsins í Keflavík þar sem hefur verið gífurlegt álag út af nauðungarsölum og aðfararbeiðnum. Það var tilfinning mín eftir þá heimsókn að kannski væri nær að umboðsmaður skuldara hefði aðsetur í Reykjanesbæ og útibú væri á höfuðborgarsvæðinu því málafjöldinn er svo mikill hjá þeim og ástandið mjög alvarlegt. Þegar ég stóð þarna í móttökunni var augljóst að engin gögn eða upplýsingar lágu frammi fyrir allt það fólk sem kemur þangað í fjárhagsvandræðum. Þangað kemur líka fólk sem er að sækja um frystingu hjá Íbúðalánasjóði og þarf að þinglýsa gögnum svo þarna gefst í rauninni mjög gott tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum um þessa leið.

Í framhaldi af heimsókninni kíkti ég á heimasíðuna hjá umboðsmanni skuldara og sú síða staðfesti það sem ég hafði sjálf upplifað í gegnum manneskju sem hafði verið að aðstoða við að fylla út umsókn til umboðsmanns skuldara, að upplýsingarnar á vefsíðunni eru mjög lélegar. Ég átti erfitt með að finna tengla inn á lögin og undir liðnum spurt og svarað var mjög óskýrt hvað greiðsluaðlögunin felur í sér í raun og veru.

Ég hef líka fengið upplýsingar um að þegar umboðsmaður skuldara hefur sóst eftir fólki, virðist vera horft mjög mikið til þess að viðkomandi sé lögfræðimenntaður. Að mínu mati er ekki endilega nauðsynlegt að starfsmennirnir séu allir lögfræðimenntaðir. Starfsmenn félagsþjónustunnar og þjónustufulltrúar bankanna eru allt fólk sem hefur starfað við að taka saman upplýsingar, umsóknir og töluleg gögn. Það ætti að geta sinnt þessum störfum mjög vel svo hægt sé að koma umsóknum og viðkomandi einstaklingum í ferli hjá umboðsmanni skuldara.