139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Enn á ný erum við að laga úrræði fyrir skuldsett heimili. Ástæðan er meðal annars sú að við erum í afneitum; við erum að afneita því að hér býr þjóð sem er skuldsettari en nokkur önnur þjóð sem hefur farið í gegnum fjármálakreppu. Þau úrræði sem við höfum verið að innleiða eru aðeins fyrir þá sem eru allra verst settir. Þetta úrræði sem nú er verið að bæta, ekki í fyrsta skipti síðan ég kom hingað inn á þing heldur í annað eða þriðja skiptið, er aðeins fyrir þá sem eru í verstri stöðu. Þetta úrræði tekur hvert og eitt tilfelli fyrir sig og skoðar skuldir, eignir og neyslu sem er tímafrekt ferli og mun ekki geta tekið við öllum þeim fjölda heimila sem nú eru á mörkum þess að geta náð endum saman.

Úrræðið, sem við köllum greiðsluaðlögun, er gott fyrir þá sem almenn skuldaleiðrétting mun ekki duga til að laga stöðuna hjá. En greiðsluaðlögun mun ekki draga úr reiði almennings sem mótmælti hér fyrir utan þinghúsið fyrir viku vegna þess að hún er of tímafrekt úrræði og tekur jafnframt of mikið mið af kröfum fjármagnsfyrirtækjanna og leiðréttir ekki nægjanlega, að mínu mati, þann forsendubrest sem orðið hefur. Þannig að greiðsluaðlögunarúrræðið án almennrar skuldaleiðréttingar (Forseti hringir.) mun ekki tryggja þá sátt sem þarf að nást um skuldir heimilanna.