139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[16:09]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ber ákaflega hlýjan hug til samþingmanns míns, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, en sá hugur er samt ekki svo hlýr að hann sé vitund hlýrri en til þjóðar minnar. Ég er ekki eingöngu að tala um heimilisbókhaldið hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur heldur er ég að tala um almenna niðurfærslu vegna þess að það er fjöldi fólks sem ekki hefur sama aflahæfi og hv. þingmaður, sem ekki hefur sömu menntun, sem ekki er á sama aldri, sem ekki er á svipaðan máta ástatt um. Ég er að hugsa um hagsmuni heildarinnar.

Ég vil líka segja að hafi hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tekið orð mín sem svo að ég væri að hæðast að skilningi hennar á réttlæti hefur ekkert slíkt hvarflað að mér og hafi ég sagt eitthvað sem gaf hv. þingmanni tilefni til að halda það biðst ég afsökunar á því, vegna þess að ég veit að þar er um mikla réttlætiskennd að ræða. En ég held að einhver hagfræðileg forskrúfun valdi því að hv. þingmaður segist eiga svolítið erfitt með að skilja hvaðan peningarnir til almennra aðgerða eigi að koma. Peningarnir koma þaðan sem þeir hafa alltaf komið og munu alltaf koma, frá fólkinu í landinu, frá vinnandi höndum.