139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[16:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sérstaklega samlíkinguna. Mér sýnist að hv. þingmaður ætli að láta skipverjana borga sjálfum sér. Það gengur út á það. Hversu mikið réttlæti það er veit ég ekki.

Hann talaði um lánveitendur sem eitthvert ljótt fólk, banka. Það vill svo til að allur sparnaður verður til … (ÞrB: Ég gerði það ekki.) Það kemur rétt strax, hv. þingmaður getur svarað. Það vill svo til að allur sparnaður verður til hjá heimilum í öllum heiminum. Kröfuhafar Landsbankans og kröfuhafar Glitnis og íslensku bankanna allra eru erlendir sparifjáreigendur, heimili í útlöndum, og lífeyrissjóðirnir eru myndaðir með sparnaði heimilanna. Íbúðalánasjóður er myndaður með ábyrgð ríkissjóðs og í hann borga skattgreiðendur allir, þar á meðal heimilin. Allur sparnaður verður því til hjá heimilunum og þess vegna ættu þeir sem gæta hagsmuna heimilanna að gæta hagsmuna fjármagnseigenda.

Það vantar allar upplýsingar, frú forseti, það er nú vandamálið. Ég tel að þriðjungur heimila á Íslandi leigi húsnæði sitt vegna þess að sá hópur hefur farið vaxandi undanfarið. Enginn hefur keypt nýja íbúð, heilu kynslóðirnar ungu hafa ekki keypt íbúð, markaðurinn er frosinn. Það fólk leigir. Síðan er annar þriðjungur — ég hef ekki upplýsingar — skuldarar og helmingurinn af þeim gerði sér far um að fara ekki í greiðslujöfnun, bað um að fara ekki í greiðslujöfnun, það þurfti að sýna frumkvæði til þess. Það þýðir að þeir voru ekki í vanda. Því er 1/3 þjóðarinnar í vanda og 2/3 eru ekki í vanda og af þeim 2/3 fær 1/3 almenna skuldaniðurfellingu, þeir sem skulda, og leigjendur fá ekki neitt en þeir borga síhækkandi leigu.