139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[16:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka umræðu um þetta litla frumvarp, sem er þó gríðarlega mikilvægt og varðar greiðsluaðlögun einstaklinga. Það er eðlilegt og sjálfsagt að það kalli á umræðu almennt um skuldavanda heimilanna og við fáum væntanlega tækifæri til að ræða það betur á morgun þegar utandagskrárumræða verður um það mál. Ég veit að þetta mál fer í öruggar hendur félags- og tryggingamálanefndar sem hefur þverpólitískt unnið að málum er tengjast skuldavanda heimilanna. Ég fagna því og veit að nefndin mun einnig taka til skoðunar áfram ýmis önnur ákvæði sem þarf að laga í lögunum til þess að bæta þau sem úrræði fyrir skuldara.

Það hefur ýmislegt komið hér fram og ég ætla svo sem ekki að fara í gegnum það allt saman en tek þó undir það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hann ítrekaði að þegar menn fóru af stað með þessi úrræði … raunar byrjuðu þau strax árið 2008 eftir hrunið, þá fóru menn út í ákveðin úrræði. Við búum við þá sérkennilegu stöðu á Íslandi að staða skuldara hefur í gegnum árin verið afar veik. Við höfum ekki innleitt ýmis af þeim lögum sem innleidd hafa verið annars staðar í Evrópu eftir hrun þar. Ég tek sem dæmi að greiðsluaðlögunarfrumvarp, svokölluð frjáls greiðsluaðlögun, sem er þannig að það þarf ekki að fara í gegnum dómstóla og á að vera mun léttara ferli. Því var komið á á Norðurlöndunum upp úr 1990 eftir að hrunið varð þar. Strax árið 2008 var talað um að beita slíkum úrræðum hér og koma með þau strax inn eftir hrunið. Þá þótti ekki fært að fara þá leið öðruvísi en það yrði dómstólaleið. Þess vegna var farið í skuldaaðlögun og það ákvað þingið á þeim tíma. Síðan hafa menn fylgt því eftir og bættu þá úrræðin, eins og hér hefur komið fram, með því að gera þetta að frjálsari greiðsluaðlögun í júnímánuði sl.

Ýmsum lögum hefur verið breytt til að bæta skuldastöðuna og ég tel mikilvægt að fara heildstætt yfir það, skoða hvernig þetta er í öðrum löndum og reyna að tryggja til lengri tíma rétt skuldara þannig að jafnræði sé á milli þeirra sem taka lán og þeirra sem veita lán. Þar hafa komið fram í umræðunni ýmsir þættir eins og t.d. það að kalla eftir ábyrgðarmönnum, það er búið að afnema það á Íslandi. Það er búið að setja mjög stífar reglur um þriðja manns ábyrgð, sem er mikið réttlætismál, en vandamálið er að þegar menn ætla að gera þetta afturvirkt beita menn fyrir sig eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, það er að þvælast fyrir okkur í augnablikinu. Jafngott og það ákvæði er hefur komið á óvart hversu óbilgjörn eftirfylgni einstakra fjármálastofnana er varðandi þann þátt.

Dæmi um það er einmitt þegar menn lentu í þessum skuldavanda og þurftu jafnvel að leysa lausaskuldir og söfnuðu þeim í einn pakka. Lánafyrirtækin voru tilbúin til að veita skuldabréf og dreifa þessum lausaskuldum til langs tíma en þá kröfðust þau ábyrgðarmanns. Nú er það jafnvel svo í úrræðunum sem við erum að nota, þar sem við erum að fella niður þessar skuldir á viðkomandi aðilum, að allt í einu er farið að ganga að ábyrgðarmönnunum sem er náttúrlega alveg hroðalegt að skuli gerast. Það þarf að stoppa það með einhverjum hætti og öllum þeim ráðum sem við höfum tiltæk. En allan þennan tíma, allt frá 2008, hefur það verið leiðarljós okkar að við getum ekki farið lengra en það að við verðum ekki meira og minna í dómstólum næstu 20, 30 eða 40 ár. Við verðum að reyna að stíga þannig til jarðar að úrræðin haldi gagnvart dómstólum þannig að óvissan öll sé ekki leyst fyrir dómstólum.

Markmiðið hefur verið alveg skýrt; að reyna að hjálpa fólki að búa á heimili sínu, reyna að hjálpa því að halda heimili sínu, ekki bara hjálpa því að komast í gegnum gjaldþrot, jafnvel þó það gæti farið hraðar í gegnum það, vegna þess að það er auðvitað erfitt úrræði líka. Og fólk gat ekki búið á heimili sínu eftir gjaldþrot fyrr en það var sett sem sérstakt úrræði.

Það er svolítið dapurt að hlusta á menn tala um að ekkert hafi verið gert því að það er nú þrátt fyrir allt búið að setja upp fjölda úrræða og mörg af þeim hafa komið að gagni, meðal annars það að fólk getur haldið búsetu á heimili sínu eftir gjaldþrot í sex mánuði til eitt ár. Menn segja það kaldranalegt að vera að nefna það sem einhvern kost en það skiptir þó máli fyrir börn að þurfa ekki að vera að flytja á miðju skólaári o.s.frv. Þetta úrræði hefur aftur á móti í framkvæmd reynst hafa ákveðna galla og þá er að sníða þá af. Menn voru meðal annars að krefjast allt of hárrar leigu og voru að krefjast fyrirframgreiðslu sem var t.d. ekki hjá Íbúðalánasjóði sem krafðist markaðsleigu eða frekar lágrar leigu og engrar fyrirframgreiðslu.

Við erum sem sagt búin að vera að vinna fullt af þessum málum. Svo að ég vitni aðeins í myndlíkinguna, sem hv. þm. Þráinn Bertelsson kom með, að við ættum að koma skipinu af strandstað eftir hrunið eða áfallið sem við urðum fyrir, að við ættum að þétta skipið og laga, þá ætla ég ekki að leyfa mér að skilja hv. þingmann á þann veg að við eigum að láta þá sem liggja í sjónum eða hanga á borðstokknum farast. Það er ekki þannig, ég skil það ekki þannig. Það er einmitt það sem við höfum verið að gera og erum enn að gera, því miður. Við getum ekki leyft okkur þann munað að hirða ekki upp þá sem erfiðast eiga og þurfa á björgun að halda þó við þurfum að sjálfsögðu að huga að því hvernig við nestum skipið út í næstu sjóferð. Þar er fullt af atriðum sem við eigum eftir óunnin.

Við eigum eftir að leita leiða til að jafna þessum byrðum, koma fólki aftur í gang, atvinnulífinu og einstaklingunum. Við eigum líka eftir að finna út hvernig við ætlum að búa um hlutina til framtíðar. Ætlum við að láta það vera í þessu eignakapphlaupi eða ætlum við að vera með góð leiguúrræði? Leigan hefur því miður að miklu leyti, eða leiguúrræðin, verið einkavædd sem þýðir að ekki er búsetuöryggi í leigu víða í landinu. Fólk verður að geta búið til langs tíma í leigu og valið þann kost. Við megum ekki gera lítið úr því að það er mikið af fólki sem mun ekki geta keypt sér húsnæði. Ef við setjum fullt af reglum um það hvað þarf til til að kaupa sér hús verðum við líka að búast við því að menn þurfi þá að leggja fram meira eigið fé og það á fólk ekki við þær aðstæður sem eru núna, að minnsta kosti ekki ungt fólk. Þannig að við skulum ekki tala niður þau úrræði sem eru en við þurfum að halda áfram að gera hlutina eins vel og við getum.

Þess vegna er búið að setja niður aðgerðahóp fimm ráðherra þar sem stjórnarandstaðan er kölluð að borðinu. Þess vegna var haldinn fundur með fjórum af nefndum Alþingis í gær til að fara yfir málin. Þess vegna er fundur klukkan sex í dag með öllum þeim sem eiga, eða eru milliliðir í sumum tilfellum, þær skuldir sem verið er að fjalla um í sambandi við almenna niðurfærslu — það eru bankarnir, lífeyrissjóðirnir, Íbúðalánasjóður o.s.frv. Þess vegna er fundur með Hagsmunasamtökum heimilanna, fulltrúum stjórnarandstöðunnar, sem ætla að setjast að borðinu og segja: Hvað getum við gert? Hvernig getum við fundið úrræði? Allt er þetta gert undir þessum aðgerðahópi sem hefur ekki valið að vera með einhverjar yfirlýsingar heldur vill vinna vinnuna og láta þá málin og verkin tala jafnóðum.

Ég hef skipt þessu verkefni í nokkra flokka. Í fyrsta lagi erum við að tala um bráðaaðgerðir og neyð, og við höfum verið að því síðastliðin tvö ár. Við getum svo sagt að við séum ekki komin nógu langt og margt af því sem við höfum verið að gera hefur ekki virkað eins og við ætluðumst til. Við þurfum að laga þau úrræði, gera þau betri. En fyrst og fremst erum við þar að reyna að koma fólki í skjól til að það verði ekki borið út ef það er möguleiki að bjarga því.

Í öðru lagi hafa verið sértæk úrræði og það er engin smáviðbót að vera komin með aðila sem hefur lagalegan rétt til að taka utan um skuldara og verja hann í baráttunni við kerfið. Það úrræði er ekki farið að virka að fullu enda er það nýtt, það er frá því 1. ágúst. Þar er verið að bæta aðstöðuna og þar hafa verið, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur réttilega bent á, ýmsir agnúar í sambandi við það að afla upplýsinga. Það er fullt af lögum, eins og persónuverndarlögum og upplýsingalögum, sem snúast um það hvað má veita af upplýsingum, sem hafa verið að tefja fyrir okkur. Það hefur t.d. tekið tíma að fá leyfi til að kalla inn öll gögn jafnvel þótt skuldari óski eftir því til að hlutirnir gangi hratt og vel fyrir sig. Þetta er allt verið að reyna að laga og eins og ég sagði áður að koma fólki í hús o.s.frv.

Við vissum að það voru á milli 1.000 og 1.500 aðilar sem áttu tvær eignir. Ákveðið var að taka það úrræði og gera það almennt þannig að menn gætu losað sig við aðra eignina, skilað því inn á bankann, ekki væri þá um að ræða greiðsluaðlögunarúrræði eða úrræði til að fella niður skuldir nema full veðsetning fylgdi eigninni. Menn yrðu síðan að fara í greiðsluaðlögun ef of mikið fylgdi eigninni sem eftir væri. Þetta úrræði hefur ekki skilað sér af fullum krafti en er nýtt og margir vitna þá til stöðunnar sem var áður.

Við getum haldið áfram. Við þurfum í þriðja lagi að fjalla um fátæktina. Ég hef allt frá upphafi haft miklar áhyggjur af þeim hópi sem stendur í skilum, stendur sig á allan hátt eins og til er ætlast, en er bara með allt of lélega afkomu og hefur hreinlega ekki í sig og á í augnablikinu. Þannig getum við ekki boðið fólki að lifa til langs tíma. Við verðum að tryggja að afkoma þessa fólks verði viðunandi og að við komum því áfram. Þarna kemur aftur að því sem ég var að nefna áður varðandi húsnæðismálin og leiguna, kostina í því hvernig fólk getur búið og hvernig við getum tryggt að almannatryggingakerfið haldi utan um fólk, sveitarfélögin og bæturnar og annað sem hér hefur komið til umræðu sem er líka hluti af fjárlögunum, með hvaða hætti við búum að fólki þannig að það geti lifað mannsæmandi lífi og með fullri reisn í samfélaginu.

Þessi aðgerðahópur fékk það verkefni, og kynnti það á þá leið, að ekkert mál er hópnum óviðkomandi. Við kölluðum fram öll mál frá stjórnarandstöðunni líka til að fara yfir og skoða, þar með almennar niðurfærslur. Þess vegna er fundurinn með bönkunum og þeim aðilum í dag. Það er spurningin um hvort og hvernig og þá mismunandi hugmyndir um útfærslur.

Hv. þm. Þráinn Bertelsson vakti athygli á því að það eru ýmsar leiðir í því að koma til móts við þá sem hafa orðið fyrir þessu hruni. Það er hugsanlegt að miða þær aðgerðir að einhverju leyti við að tekið sé tillit til þess hverjir fóru verst út úr þessu, með því að taka tillit til hvenær hlutirnir gerðust. Það er auðvitað þannig, og við skulum bara horfast í augu við það, að það varð eignamyndun á höfuðborgarsvæðinu allt upp í 50–60% á mjög skömmum tíma — þeir sem voru með eignir sem voru kannski keyptar fyrir árið 2000. Síðan hrynur eignin aftur og því miður hafði þessi hækkun verið notuð til að skuldsetja húsið með því að kaupa eitthvað annað. Við þurfum að huga að öllum þessum málum og fara skipulega yfir það. Það hefur svo sem verið gert áður en nú er ástæða til að fara upp á nýtt yfir þetta. Það er það sem verið er að gera á þessu augnabliki.

Ég get nefnt í viðbót atvinnumálin og það að hafa vinnu og hvernig við hreinsum skuldir af fyrirtækjum. Það hefur verið talað um það eins og það væri einhver dauðasynd að hjálpa þeim. Það er bara lífsspursmál líka að þau haldi áfram að starfa. Þar er líka fullt af einyrkjum sem eru í miklum vandræðum, og heimili tengd því, og því þarf að bjarga. Við þurfum að fá atvinnulífið til að ganga enn hraðar. Við megum ekki gleyma því að það er í fullum gangi, það er heilmikið um að vera, heilmikið að gera, sem betur fer. Ég nefndi áður fjárlagafrumvarpið og svo þurfum við þessa framtíðarsýn eins og ég sagði hvað varðar húsnæðismálin o.s.frv.

Við höfum verið að vinna, við höfum verið á strandstað að reyna að undirbúa skipið á sama tíma og við erum að bjarga fólki upp jafnóðum og það hrynur út fyrir. Það hefur verið forgangurinn að koma fólki í land og það skiptir mjög miklu máli. Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. Þráinn Bertelsson — ég sé að hann kinkar kolli — er sammála mér um að við viljum bjarga hverjum einstaklingi og kippa honum í land. Þá verður það að bíða aðeins, á meðan skipið er þó öruggt á strandstað og er ekki að sökkva, að við leitum úrræða til að koma því fólki öllu saman heilu í höfn.

Þetta er vinnan sem við erum að ganga í gegnum og það togast á hagsmunir í þessu kerfi. Það er líka alveg rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að við megum ekki gleyma því að þeir sem lánuðu okkur peninga í góðri trú eru líka einstaklingar, góðgerðarfélög, fjárfestar sem varðveita sjóði fyrir sveitarfélög erlendis o.s.frv. Þeir hafa þegar tekið á sig 6 til 8 þúsund milljarða af Íslendingum. Við getum sagt að það sé gott á þá eða eitthvað slíkt, en það er bara ekki boðleg umræða. Við verðum að vita hverjum við erum að vinna með og gegn þannig að þetta er ekkert auðvelt viðfangsefni.

Verkefni okkar er eitt og hið sama og ég hef aldrei haft tilfinningu fyrir því að menn hafi ekki sama viljann til að reyna að leysa málin. Það er aðalatriðið að við getum átt orðastað hvert við annað og reynt að leita að lausnum. Það verður ekki nein ein lausn. Það verður heldur ekki sátt um eina lausn vegna þess að það er pólitískur ágreiningur um hvern á að verja í þessu uppgjöri. Við skulum ekkert vera að deila um það. Þannig er það bara. Ég held að allir hafi það markmið að koma heimilunum í skjól. Ég vil gjarnan að horft sé á þetta út frá börnunum, það er það sem skiptir máli. Við getum ekki bætt þann skaða ef við förum illa með þau í þessari umræðu. Hluti af því að vernda börnin er líka að tala varlega um þessa hluti, þ.e. að hræða þau ekki, hræða ekki þá sem eiga undir högg að sækja og gera ekki meira úr þeim vanda sem er, á sama tíma og við erum að vinna örugglega að því að reyna að koma fólki áfram.

Verkefnið er skýrt og þetta er bara lítill hluti af því sem þarf að leysa. Það eru fleiri hlutir að koma inn núna varðandi nauðungarsölur og það er verið að skoða lyklafrumvarpið. Það er verið að skoða fleiri hluti sem skipta máli. Við skulum vona að það skili sér hægt og bítandi hér inn. Það er verið að gera þetta upp varðandi gjaldeyrismálin, þ.e. þessi ólöglegu lán sem þarf að hreinsa út úr kerfinu. Það tekur líka sinn tíma að finna út hvernig á að gera það, líka til að tryggja jafnræði þar á milli, það er hægt að fara í dómsmál þar og sumir mundu hugsanlega verða að taka þetta á sig, þ.e. að lánin yrðu dæmd lögleg. Nú er verið að reyna að gera það allt með samræmdum hætti. Vonandi tekst okkur það. Þetta er það sem verið er að vinna að. Við skulum tala það upp og reyna að stilla saman strengi til að finna lausnir og fagna því sem kemur fram en ekki að auka bölmóðinn jafnslæmt og ástandið þó er.