139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna og afskriftir.

[10:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á hvað ég kem seint í stólinn, ég var niðursokkinn í umræður um skuldir heimilanna við annan hv. þingmann. En ég er með fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra er snertir það umræðuefni sem við hv. þm. Margrét Tryggvadóttir vorum að ræða í þingsalnum.

Það er fátt mikilvægara í dag en skuldir heimilanna og sú umræða sem þarf að fara fram um þau mál og ekki síst þær lausnir sem þurfa að koma fram. Menn hafa mikið rætt og velt fyrir sér hvernig staðið var að stofnun nýju bankanna, á hvaða kjörum þeir keyptu lánasöfn gömlu bankanna eða á hvaða kjörum þau voru færð yfir. Mikilvægt er að þær upplýsingar séu alltaf uppi á borðinu og sem nýjastar og ferskastar. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra þessarar spurningar: Hversu mikið af skuldum íslenskra heimila var að jafnaði afskrifað, þar á meðal íbúðaskuldir, við flutning lánanna úr gömlu bönkunum í þá nýju?

Við vitum að það var afskrifað eitthvað. Það eru misvísandi upplýsingar sem fram hafa komið um hversu mikið var gert af því, hversu háar upphæðir það eru. Því er mikilvægt að við fáum að vita í eitt skipti fyrir öll hvað mikið var afskrifað að jafnaði. Umræðan er vitanlega enn þá sú að láta hluta af þessum afskriftum ganga til heimilanna, sem er ekkert annað en sanngirnissjónarmið vegna þess að öll heimili urðu fyrir forsendubresti.