139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

viðbrögð við dómi um gengistryggð lán.

[10:51]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst gera ágreining við hv. þingmann um að þau úrræði sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda hafi ekki virkað vegna þess að þau hafi verið illa unnin eða að fljótaskrift sé á þeim í þinginu eða af hálfu ríkisstjórnar. Þvert á móti held ég að þingið hafi vandað sig mjög við vinnslu þessara mála og það hefur verið vandað mjög til þeirra af hálfu ríkisvaldsins.

Hitt er annað mál, og það verða allir að taka til sín, opinberir aðilar, lífeyrissjóðir og bankar, að um leið og lagasetningu linnir í þinginu byrja menn að tefja mál og drolla og hætta að vinna í samræmi við það sem löggjafinn hefur ákveðið. Það er vandamálið. Við þurfum, svo maður noti margtuggið og ofnotað orðalag, að ryðja öllum hindrunum úr vegi svo skuldahreinsun fyrirtækja og heimila gangi hratt fyrir sig. Það á að vera sameiginlegt verkefni okkar allra og við eigum að kalla eftir því við alla aðila á markaði að þeir vinni í takti við það, að öll fyrirtæki komi saman að skuldaendurskipulagningu fyrirtækja (Gripið fram í.) og hangi þar ekki eins og hundar á roði á litlum skuldum og reyni að skapa sér betri stöðu. Að skattyfirvöld komi að borðinu með sama hætti og lánastofnanir, að allar lánastofnanir taki þátt með sama hætti og að ábyrgðarmannakerfið virki eins og Alþingi ákvað í mars 2009 þannig að hægt sé að fella niður ábyrgðarskuldir með afturvirkum hætti, t.d. í greiðsluaðlögun.

Alla þá hluti þarf að vinna almennilega í framhaldinu og það dugar ekki að benda alltaf á Alþingi eða framkvæmdarvaldið því að við höfum sannarlega gert það sem til okkar friðar heyrir. (Gripið fram í: Ekki ég.) En samfélagið þarf að tala og vinna í takti við það sem ákveðið hefur verið.

Varðandi gengislánadóminn er frumvarp á lokametrunum. Við bíðum auðvitað enn þá eftir samkomulagi við bankana um skaðleysisyfirlýsingu. Frumvarpið hefur verið kynnt í grófum dráttum í efnahags- og skattanefnd. (Forseti hringir.) Þar verður ekki gert upp á milli þess hverjir megi fá einhverja fyrirgreiðslu með öðrum hætti en þeim að við beitum almennt reglum til þess að tryggja að heimili séu jafnsett.