139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

viðbrögð við dómi um gengistryggð lán.

[10:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra tók ekki langan tíma í að svara spurningunni minni en það sem kom frá honum eru þó nokkur tíðindi, það er ekki í samræmi við það sem kynnt var í hv. viðskiptanefnd fyrir tveim dögum, ef ekki á að skipta skuldurum upp á milli fyrirtækja og einstaklinga. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að hæstv. ráðherra sýni okkur frumvörpin þannig að við getum farið vel yfir þau því að ég verð að segja að eftir að hafa hlustað á hæstv. ráðherra, sem ég sat með á fundi í gærkvöldi, er ljóst að ástandið er mjög alvarlegt. Hér er um fullkomna veruleikafirringu að ræða hjá hæstv. ráðherra. Hver einasti aðili sem að málinu kom í gær sagði þau úrræði sem hér væru unnin dygðu ekki vegna þess að þau væru flókin og að erfitt væri að vinna með þau.

Í morgun, rétt áðan, var ég á fundi í hv. félagsmálanefnd. Við vorum að reyna að bjarga fyrir horn úrræðum sem unnin voru á gríðarlegum hraða, (Forseti hringir.) illa unnin frá hæstv. ráðherra, og því miður tókum við allt of skamman tíma í þau á þinginu og við sitjum uppi með vanda. Ef menn horfast ekki í augu við hann (Forseti hringir.) heldur segja bara að þetta sé allt öðrum að kenna er mjög illa fyrir þeim komið.