139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

aðkoma lífeyrissjóðanna að lausn skuldavanda heimilanna.

[10:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá neinum að vandi heimilanna er mikill og úrræðin lítil hjá ríkisstjórninni. Það sér ekki fyrir endann á þessum vandræðagangi því að fá úrræði eru til staðar.

Á góðri stundu telja lífeyrissjóðir landsmanna sig eiga 1.800 milljarða. Þeir eru þannig fengnir að það er skylduaðild að lífeyrissjóðunum þannig að raunverulega eru það ekki lífeyrissjóðirnir sem eiga sjálfa sig heldur eru það landsmenn sem eiga lífeyrissjóðina. Samtals eiga lífeyrissjóðirnir rúmlega 440 milljarða af útistandandi skuldabréfum Íbúðalánasjóðs sem eru notaðir til fasteignakaupa og svo hafa lífeyrissjóðirnir sjálfir lánað 180 milljarða til húsnæðiskaupa. Það eru um 620 milljarðar eða 1/3 eigna lífeyrissjóðanna.

Í ljósi þess að niðurfærsluleið Framsóknarflokksins um almenna skuldaniðurfellingu er talin kosta um 200 milljarða, sem er nákvæmlega sú tala sem stjórnvöld dældu inn í innstæðutryggingarsjóðina við hrunið, og lífeyrissjóðirnir eiga stóran skuldastabba, 620 milljarða, spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hefur verið skoðað hvort lífeyrissjóðirnir geti komið með virkum hætti að því að leysa skuldamál heimilanna með því að eignast ákveðinn eignarhlut í öllu íbúðarhúsnæði á Íslandi þar sem lögheimilisfesta gildir?

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra segir að þarna séu líka opinberir starfsmenn. Þá geri ég það að tillögu minni, ef þessi leið verður farin, að ríkissjóður komi inn með sama hætti og almennu lífeyrissjóðirnir og eignist virkan eignarhlut í húsnæði þess fólks (Forseti hringir.) sem greiðir í þann sjóð. Ef sú leið er farin minnkar innlegg ríkisins alla vega niður í helming ef ekki í 1/4.