139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

aðkoma lífeyrissjóðanna að lausn skuldavanda heimilanna.

[10:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Reyndar held ég að þessar tölur séu nokkru hærri nú. Vegna kaupa lífeyrissjóðanna m.a. á bréfum í svonefndnum Avens-viðskiptum á sl. vori lætur nærri að þeir séu komnir á bak við yfir 500 milljarða af fjármögnun Íbúðalánasjóðs og eru síðan með um 175 milljarða í útlánum til sjóðfélaga sinna og þar eru af tveir lífeyrissjóðanna langstærstir í þeim viðskiptum.

Það er m.a. verið að ræða við lífeyrissjóðina og þeir voru á stórum fundi í gær ásamt bönkunum og fleirum sem fóru yfir þessi mál. Það hefur auðvitað víðtæk áhrif á stöðu þeirra, réttindi o.s.frv., að lífeyrissjóðirnir taki á sig umtalsverða niðurfærslu eigna sinna og gerir aðgreininguna í opinbera lífeyrissjóðakerfið annars vegar og almenna lífeyrissjóðakerfið hins vegar ekki auðveldari viðfangs. Hins vegar er alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir, rétt eins og bankar og ríkið, eiga mikla hagsmuni af því að vel takist að vinna úr þessum málum því að allir þessir aðilar munu þurfa að horfast í augu við afskriftir með einum eða öðrum hætti og gera það nú þegar. Kannski er staða lífeyrissjóðanna á margan hátt hvað tryggust og vanskilin minnst miðað við upplýsingar sem ég hef um það, en engu að síður ætlumst við til þess að lífeyrissjóðirnir séu með í þessum viðræðum og leggi sitt af mörkum með einum eða öðrum hætti. En hvort það fer fram í gegnum umtalsverða niðurfærslu á eignasafni þeirra er annað mál og ég held að menn ættu í fyrsta lagi að hugleiða hvernig menn sæju slíkt geta gerst og í öðru lagi hvaða afleiðingar það hefði áður en þeir fara að gefa sér að það sé vænleg aðferð til þess að takast á við þennan vanda.

Besti kosturinn fyrir alla þessa þrjá aðila er augljóslega sá að allir leggi sitt af mörkum og að aðgerðir séu samræmdar. (Forseti hringir.) Samstilltar aðgerðir eru líklegastar til að spara þeim öllum fjárútlát á komandi árum.