139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

aðkoma lífeyrissjóðanna að lausn skuldavanda heimilanna.

[11:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gleðiefni að lífeyrissjóðirnir eigi meira en ég talaði um hér með þær upplýsingar sem ég hafði og vil þar með upplýsa að ég er með skriflega fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem kemur líklega fyrir þingið fljótlega, um hvernig stóð á kaupum lífeyrissjóðanna á þessum Avens-bréfum, en það er önnur saga.

Hér er ég ekki að tala um neina niðurfærslu á nokkrum hlut, ég er að tala um að lífeyrissjóðirnir eignist virkan hlut í íbúðarhúsnæði þar sem lögheimilisfesti gildir. Hæstv. fjármálaráðherra verður að svara mér því og ég spyr því aftur: Kemur það til greina að mati ráðherrans að lífeyrissjóðirnir eignist virkan eignarhluta í íbúðarhúsnæði landsmanna með þessum sáttmála viðkomandi aðila við sinn lífeyrissjóð til þess að fólk geti farið að lifa á ný og kaupa þær nauðsynjar sem fjölskyldurnar þurfa á að halda í þeirri kreppu sem nú gengur yfir, að (Forseti hringir.) lífeyrissjóðirnir leysi til sín eignarhlut í íbúðum þannig að fólk geti hér haldið áfram að lifa?