139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

forsendur fjárlagafrumvarpsins.

[11:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður er að spyrja út í það verklag eða þá hugmynd að vinnulagi hér að ekki sé lagt neitt fjárlagafrumvarp fram vegna óvissu um þjóðhagsforsendur fyrr en þá kannski í lok nóvember og það yrði bara afgreitt í einum hvelli get ég ekki mælt með því. Að sjálfsögðu verður að undirbúa fjárlagafrumvarp og það tekur allan fyrri hluta ársins að gera það og menn nota síðan við lokafrágang þess þær nýjustu þjóðhagsspár og forsendur sem fyrir liggja. Og nýjasta hagspáin sem var hægt að byggja á var spá Hagstofunnar frá því í júní og síðan upplýsingar eftir því sem hægt er að lesa þær inn í forsendurnar úr ríkisbókhaldinu, af vinnumarkaði og annars staðar frá. Ég hef áður farið yfir það í umræðum hér að það er ekki hægt að tína mismunandi hluti út úr mismunandi spám frá mismunandi tímum. Við verðum að styðjast við eina heildstæða spá, eitt heildstætt mat á líklegum horfum.

Ég verð að segja alveg eins og er að þessi umræða um álver í Helguvík, eins og að allar þjóðhagsforsendur á Íslandi standi og falli með því hvort það kemur og í hvaða umfangi og fyrr eða seinna, er auðvitað alveg dæmalaus umræða. Það hefur hverfandi vægi á móti því hvernig hið almenna hagkerfi þróast. Síðan koma breytingar sem eru yfirleitt í báðar áttir, fjárfestingarnar í Straumsvík eru umtalsvert meiri sem þegar hafa verið ákveðnar en gert var ráð fyrir í þjóðhagsforsendum. Það er þá kominn plús á móti. Lægri vextir, sterkara gengi hefur umtalsverð þjóðhagsleg áhrif, þar af lægra atvinnuleysi líka. Það eru vísbendingar í þá átt að þjóðhagshorfurnar hafi í sumum tilvikum batnað frá júní og þó svo að Helguvíkurframkvæmdum kunni að seinka hefur það ekki neitt afgerandi vægi fyrir hinn almenna undirliggjandi þjóðhagslega grundvöll þessarar vinnu. Það er einfaldlega þannig að við tökum þær upplýsingar sem koma í byrjun nóvember inn, þær verða notaðar í lokaafstillingu og (Forseti hringir.) uppreikningi á meginbreytum fjárlagafrumvarpsins eins og alltaf er gert.