139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum atvinnumál á Suðurnesjum. Þrátt fyrir þá staðreynd að atvinnuleysi hefur frá hruni verið og er enn mest á Suðurnesjum eða 11,3% í september á meðan landsmeðaltal er 7,1%, eins og fram hefur komið, erum við enn tveimur árum síðar að ræða sömu vandamálin.

Liggur vandinn í skorti á frumkvæði heimamanna? Nei, það er öðru nær. Á Suðurnesjum bíða fjölmörg verkefni eftir því að ríkisvaldið aflétti hömlum, vinni vinnuna sína og sýni vilja sinn í verki.

Helguvíkurhöfn. Meiri hluti stjórnarþingmanna treystir sér ekki til að styðja hana. Orðið stóriðja kemur fyrir. Þeir segja: Gerið eitthvað annað. Norðurál. Ríkisstjórnin segir: Einsýni, öngstræti, gerið eitthvað annað. Kísiliðja. Ríkisstjórnin segir: Orkunýting, gerið eitthvað annað.

Á Ásbrú eru einnig nokkur verkefni. Keilir. Ríkisstjórnin segir málið eitthvað tengt einkaaðilum. Gerið eitthvað annað. Gagnaver. Ríkisstjórnin vill skattleggja og bíða. Seinagangur, hægagangur, gerið eitthvað annað. Heilbrigðisþjónusta. Ríkisstjórnin segir: Þröngsýni og einkaeitthvað. Gerið eitthvað annað. ECA. Hernaðarbrölt segir ríkisstjórnin, gerið eitthvað annað. HS Orka, sagan endalausa. Ríkisvaldið segir að einhverjir segi orkuna búna á Suðurnesjum þrátt fyrir að nýjustu borholur sýni mun stærra svæði og meiri orku en áður var talið. Stjórnarflokkarnir rífast látlaust um eignarhald á fyrirtækinu og skapa þar með mikla óvissu um starfsemina. Í raun segir ríkisvaldið: Bíðið eftir umhverfisráðherra og skipulagsvaldi ráðherra og staðfestingum þess. Bíðið eftir iðnaðarráðherra og rammaáætlun. Gerið eitthvað annað á meðan.

Nú stendur sem sagt upp á ríkisstjórnarflokkana hvað þetta annað er. Ef það er biðstaða og stöðnun er það hvorki ásættanlegt fyrir vinnufúsar hendur á Suðurnesjum né fyrir atvinnulíf landsmanna allra. Vilji er allt sem þarf og hann skortir hjá ríkisstjórnarflokkunum, alla vega öðrum þeirra. Tækifærin eru hins vegar fyrir hendi.