139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:37]
Horfa

Jórunn Einarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hátt hlutfall atvinnuleysis á Suðurnesjum er mikið áhyggjuefni og að sjálfsögðu er brýnt að leysa það. Á því leikur enginn vafi enda aðstæður á Suðurnesjum þannig að þetta verður að vera forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar. Um þetta mál er enginn ágreiningur, sem betur fer. En við verðum líka að vera hreinskilin gagnvart vandanum og horfast í augu við það að verkefnin sem við leggjum á borð séu raunhæf og framkvæmanleg. Það lítur nefnilega þannig út, því miður, að ítrekað hafi verið lagðar á borð stórkarlalegar hugmyndir um einhæfa atvinnuuppbyggingu sem hafa við nánari athugun reynst illa ígrundaðar og óraunhæfar. Þetta vekur upp deilur. Það er erfitt að vinda ofan af þessum deilum og aðrar hugmyndir hafa ekki komist að borðinu.

En þá er spurt: Hvað er til ráða? Það verður fyrst og síðast að horfa til aukins samstarfs sveitarfélaga og ríkis eins og margoft hefur komið fram hér í dag og ég tel að það þurfi að efla alla nýtingu á auðlindum á svæðinu — en á forsendum sjálfbærni. Mig langar að minnast á að í stöðuskýrslu um Suðurnes í Sóknaráætlun 20/20 kemur fram að 15,6% af kvóta landsmanna eru annaðhvort í eigu Suðurnesjamanna eða fyrirtækja á svæðinu. Suðurnesjamenn hafa náð að auka þorskígildiskvóta á svæðinu þrátt fyrir samdrátt á landinu í heild. Ég tel því nauðsynlegt að skoða hvort ekki sé hægt að efla þessa nýtingu sjávarafurða enn frekar á svæðinu.

Við vitum að smá og meðalstór fyrirtæki skila mestum arði og flestum störfum í reynd og því hvet ég til þess að sveitarfélögin á Suðurnesjum og ríkið líti til fleiri átta en álvera vegna þeirra fórna sem þau kosta umhverfið.

Mig langar líka að nefna að til framtíðar mætti vel líta til sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna en þar er fjallað um réttláta skiptingu sjávarauðlindarinnar og þar er sérstök (Forseti hringir.) áhersla lögð á hlut sveitarfélaganna. Þetta er bara eitt sjónarmið af mörgum sem vafalaust finnast innan um stórkarlalegar og einhæfar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á þessu svæði.