139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Eins og hefur komið fram í máli þeirra þingmanna sem hafa talað á undan mér erum við á Suðurnesjunum að fást annars vegar við sveitarfélög þar sem eru gífurlega stór vandamál en við erum hins vegar líka með sveitarfélög á Suðurnesjunum þar sem staðan er bara nokkuð þokkaleg. Eins og hv. þm. Jórunn Einarsdóttir nefndi áðan er Grindavíkurbær t.d. mjög vel staddur fjárhagslega, hvort sem litið er til sveitarfélagsins eða þeirra fyrirtækja sem þar eru starfandi.

Staðan er hins vegar allt önnur í Reykjanesbæ og þar býr meginþorri íbúa Suðurnesja. Þar hafa stoðir atvinnulífsins hrunið á undanförnum árum. Varnarliðið fór, byggingariðnaðurinn sem var farinn að byggjast töluvert upp er líka farinn og þjónusta við flugvöllinn tók svolítið högg á sig í tengslum við hrunið þar sem fækkaði mjög utanlandsferðum okkar Íslendinga. Annað högg sem hefur komið líka í beinu framhaldi af hruninu er þegar ein af grunnstoðum samfélagsins, Sparisjóður Keflavíkur, fór í þrot.

Það sem ég tel skipta mestu máli um það hvernig við getum komið atvinnulífinu til aðstoðar á Suðurnesjum er að horfa til sérstöðu svæðisins. Það er það sem var lagt upp með í 20/20-áætlun ríkisstjórnarinnar og það var líka lagt til grundvallar með vaxtarsamningnum. Sérstaðan þar er sú að þeir hafa orku, þeir hafa höfn og þeir hafa flugvöll. Þeir hafa líka þekkingu á þessum atriðum. Við verðum að styðja við þetta. Ég er ekki að tala um að ríkið eigi að búa til störf en ríkið á hins vegar að búa til umhverfið þannig að störfin verði til og ýta undir frumkvæði einstaklinganna á svæðinu. Við eigum ekki að vera að reyna að stöðva það frumkvæði sem er þegar til staðar eða koma í veg fyrir það, heldur eigum við að styðja við það.