139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin við spurningunum sem ég bar fram. Ég varð fyrir vonbrigðum með að við gætum ekki sameinast um að mynda breiðsíðu, þingsátt um að styðja við bakið á verkefnunum sem rætt hefur verið um. Ég frábið mér sem Suðurnesjamanni, sem Keflvíkingi að hlusta á málflutning eins og þann sem kom fram hjá hv. þm. Jórunni Einarsdóttur sem sagði að öll þau fjölmörgu verkefni, sem hún hefur greinilega ekki kynnt sér, væru illa ígrundaðar stórkarlalegar áætlanir.

Hefur hv. þingmaður kynnt sér heilsutengda ferðaþjónustu sem verið er að reyna að setja á laggirnar þrátt fyrir að flokksmenn hv. þingmanns séu stöðugt að reyna að berjast gegn því? Hefur þingmaðurinn kynnt sér menntauppbyggingu, t.d. hjá háskólasetrinu Keili? Hefur þingmaðurinn kynnt sér þessar hugmyndir eða eru þetta bara stórkarlalegar ömurlegar yfirlýsingar þingmanns sem hefur ekki neinar lausnir fram að færa? Ekki neinar. Ég reiðist þegar bornar eru á borð slíkar fullyrðingar og það að segja að verkefnin sem verið er að vinna að, ekki bara af Suðurnesjamönnum heldur af fólki í atvinnulífinu út um allt, dragi úr frumkvæði. Það er frumkvæðið sem heldur lífi í fólki þarna suður frá. Þau koma með frumkvæði þrátt fyrir að vera rekin til baka með ný og ný verkefni. Ég vona svo sannarlega að ég geti bráðlega tekið undir orð hv. þm Björgvins G. Sigurðssonar sem sagði að brátt sæist til sólar því þetta verður að leysast. (Forseti hringir.)

Ég verð að segja, hæstv. fjármálaráðherra, þetta eru engin (Forseti hringir.) geimvísindi. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna og skapa störf. Þetta gerist ekki öðruvísi.