139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

nauðungarsala.

58. mál
[11:55]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir andsvarið og góðar undirtektir. Ég er sammála því sem fram kom í máli hans að það er mikilvægt að bæta upplýsingastreymi til þeirra sem eiga í hlut. Það höfum við reynt að gera í átakinu sem efnt hefur verið til af hálfu ríkisstjórnarinnar, að taka á skuldamálum.

Ég hef haft samband við alla sýslumenn landsins og óskað eftir upplýsingum frá þeim. Það var gert af hálfu ráðuneytisins og við höfum efnt til sameiginlegra funda með fulltrúum sýslumanna annars vegar og umboðsmanns skuldara hins vegar. Að því hafa fulltrúar félagsmálaráðuneytisins einnig komið. Við vinnum að betri upplýsingagjöf og betri þjónustu við þá sem lenda í þessum vanda. Reynum að opna faðminn (Forseti hringir.) betur gagnvart fólki. Upplýsingagjöfin er að verða miklu tryggari að mínum dómi.