139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

nauðungarsala.

58. mál
[11:58]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efnisatriðin sem komu fram í máli hv. þingmanns. Það er mikilvægt að hraða skoðun á þeim frumvörpum sem hann vék að, lyklafrumvarpinu svo kallaða eða lyklakippufrumvarpinu, sem fékk ágæta umræðu sl. vor en var ekki lokið. Við erum enn með þetta til skoðunar.

Þess er að vænta núna á næstu dögum að inn í þingið komi frumvarp um fyrningu krafna eftir gjaldþrot þar sem tímaþak yrði sett á slíkar kröfur. Þetta tel ég mikilvægt fyrir fólk svo það geti staðið á fætur eftir gjaldþrot. Það er sitthvað í skoðun og í burðarliðnum.

Eitt langar mig til að segja í tilefni þessarar umræðu. Viðfangsefnin sem við glímum við eru mjög erfið. Ég nefni sérstaklega álagið sem er á embætti umboðsmanns skuldara. Það er mikið álag á embættinu sem ég tel standa sig afar vel í þessu máli. Ríkisstjórnin hefur gert ráðstafanir til að efla embættið og til að ryðja úr vegi þröskuldum sem hafa staðið í vegi fyrir því að úrræðin sem gripið hafa verið til virki. Þetta er hluti af átakinu sem ég vona að komi til með að skila skuldurum betri stöðu.