139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

almenn hegningarlög.

48. mál
[12:06]
Horfa

Flm. (Jórunn Einarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, um kynferðisbrot. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Þuríður Backman, Lilja Mósesdóttir, Eygló Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að 1. mgr. 194. gr. orðist svo, með leyfi frú forseta: „Hver sem gerist sekur um nauðgun skal sæta fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 16 árum.“

Og síðan: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var áður flutt á 135., 136. og 138. löggjafarþingi af Atla Gíslasyni og fleiri þingmönnum en varð ekki útrætt og er því endurflutt.

Í XXII. kafla almennra hegningarlaga er fjallað um kynferðisbrot og er 1. mgr. 194. gr. svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“

Eins og sjá má er lögð megináhersla á verknaðaraðferð, líkamlegt ofbeldi, líkamlega áverka og hótanir. Sú áhersla hefur endurspeglast í rannsóknum nauðgunarmála þar sem andlegum áverkum hefur verið lítill gaumur gefinn. Það sem aukin þekking á afleiðingum nauðgana hefur hins vegar fært okkur er vitneskjan um að andlegir áverkar eru alvarlegustu afleiðingar nauðgana. Því tel ég nauðsynlegt að lögin endurspegli þekkingu á málum er snerta kynbundið ofbeldi.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að áherslan á verknaðaraðferðina verði algjörlega felld úr textanum enda ljóst að orðalag greinarinnar samrýmist ekki þeirri grundvallarhugsun sem býr að baki mannréttindaákvæðum um friðhelgi einkalífs eins og rækilega er fjallað um í greinargerð með frumvarpinu.

Friðhelgi einkalífs er safnheiti ýmissa mannréttinda sem varin eru af stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. Friðhelgin nær yfir heimili, fjölskyldu, persónulega hagi, en umfram allt það að hver maður hefur rétt til lífs og rétt til að ráða yfir eigin líkama og sálarlífi sem eru mikilvægustu einkalífsréttindin.

Ef þarfir manna eru hafðar að leiðarljósi þegar fjallað er um réttinn til lífs felst hann ekki aðeins í réttinum til að vera ekki tekinn af lífi. Rétturinn til lífs þarf einnig að samræmast sjálfsvirðingu manna, rétti til frelsis, mannhelgi og að þurfa ekki að þola ólögmætar þvinganir.

Í friðhelgi einkalífs felst bæði friðhelgi gagnvart hinu opinbera og friðhelgi milli einstaklinga innbyrðis. Þrátt fyrir að mannréttindin sem talin eru í mannréttindasáttmála Evrópu séu að meginstefnu réttindi sem vernda einstaklinginn fyrir óþarfaafskiptum og -þvingunum af hálfu ríkisins er þess krafist af ríkinu að það tryggi að mannréttindi verði virk í reynd. Í dæmaskyni má nefna að í máli gegn Hollandi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu var deiluefnið að ekki var hægt að ákæra mann fyrir kynferðislega misnotkun á andlega fatlaðri stúlku þar sem hollensk refsilög höfðu ekkert ákvæði sem þessi háttsemi gæti fallið undir. Niðurstaða dómsins varð sú að athafna ríkisins væri þörf til þess að gera vernd réttinda, samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmálans, virka. Í öðru lagi má nefna dóm Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem búlgarska ríkið var ekki talið hafa staðið með fullnægjandi hætti að lögreglurannsókn og meðferð nauðgunarmáls og þar með ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt sáttmálanum um að gera mannréttindi virk í raun.

Víkjum því næst að kynfrelsi og hvað felst í því hugtaki. Kynfrelsi tengist réttinum til frelsis, mannhelgi og réttinum til að ráða yfir eigin líkama. Kynferðisofbeldi birtist í mismunandi formi, svo sem nauðgun, sifjaspelli, kynferðisofbeldi gagnvart börnum, klámi og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum eða annars staðar. Þessi brot eiga það sameiginlegt að kynferðislegum athöfnum er beitt gegn vilja þess sem fyrir ofbeldinu verður og þær valda skaða.

Í bók sinni Unwanted Sex: The Culture of Intimidation and the Failure of Law leggur Stephen Schulhofer, lagaprófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, áherslu á að refsiákvæði um nauðganir ættu að snúast um hugmyndina um kynfrelsi einstaklingsins. Schulhofer skilgreinir kynfrelsi sem kynferðislegan sjálfsákvörðunarrétt, þ.e. „réttinn til að velja og hafna kynferðislegu samneyti, hvar sem er, með hverjum sem er og hvenær sem er“ eins og Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir lögfræðingur þýðir það í kandídatsritgerð sinni, Nauðgun frá sjónarhóli kvennaréttar. Schulhofer telur að kynferðislegt sjálfræði eða kynfrelsi eigi að vera grundvallarhugtak í lagasetningu um kynferðisofbeldi og að brotið sé gegn kynfrelsi þegar gerandinn sýnir kynferðislega hegðun án þess að tryggja að hann hafi til þess fullgilt samþykki hjá þeim sem hegðunin beinist að.

Konur hafa á grundvelli reynslu sinnar skilgreint nauðgun sem kynferðisofbeldi karla þar sem sjálfsákvörðunarréttur kvenna er virtur að vettugi og réttur þeirra til sjálfsstjórnar brotinn á bak aftur. Eins og staðan er núna er áherslan fyrst og fremst lögð á verknaðaraðferð í stað þess að leggja áherslu á verndarhagsmuni og samþykki. Á þessum skilgreiningum byggist nauðgunarhugtak frumvarpsins.

Skoðum þá samanburð ýmissa lagaákvæða er vernda friðhelgi einkalífsins. Í núgildandi ákvæði 194. gr. sem varð til með lagabreytingu 4. apríl 2007, og reyndar ákvæði sem gilti áður, skipti verknaðaraðferðin mun meira máli en verndarhagsmunir og samþykki, þ.e. hvernig ódæðið var framið. Við rannsóknir nauðgunarmála hefur mikil áhersla jafnframt verið lögð á líkamlegt ofbeldi og líkamlega áverka en rannsókn á andlegum áverkum gefinn lítill gaumur eins og síðar verður vikið að. Orðalag 194. gr. almennra hegningarlaga samrýmist heldur ekki þeirri grundvallarhugsun sem býr að baki mannréttindaákvæðum um friðhelgi einkalífs.

Í nauðgunarmáli þarf ásetningur geranda að ná til allra efnisþátta nauðgunarákvæðisins og þess virðist krafist að gerandinn hafi gert sér grein fyrir því að verknaðurinn hafi verið framinn gegn vilja brotaþola. Í málum þar sem engir líkamlegir áverkar sjást snýst því sönnunin oft um það hvort gerandinn hafi gert sér grein fyrir því hvort þolandi var samþykkur samræðinu eða ekki. Hér á eftir verður til samanburðar gerð grein fyrir ýmsum ákvæðum almennra hegningarlaga sem vernda friðhelgi einkalífs. Sem dæmi má nefna 228. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um bréfleynd þar sem refsivert er að hnýsast í bréf, skjöl og önnur slík gögn án þess að ofbeldi eða hótanir komi þar nokkuð við sögu. Það er því alveg ljóst í mínum huga að nauðgunarákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga veitir líkömum og sálarlífi kvenna mun minni réttarvernd en 228. gr., um bréfleynd.

Annað dæmi er hegningarákvæði sem verndar fólk fyrir húsbroti. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Ef maður ryðst heimildarlaust inn í hús eða niður í skip annars manns […] varðar það sektum eða fangelsi.“ — Þarna er talað um „heimildarlaust“ og þar er lögð áhersla á samþykki eða samþykkisleysi. Um þetta hegningarlagaákvæði gildir hið sama og um bréfleyndarákvæðið. Verndarhagsmunirnir eru minni en alls ekki jafnströng skilyrði sett um verknaðaraðferð og þessi grein nauðgunarlaganna kveður á um. Hér er beinlínis höfðað til þess að samþykki þurfi og það er í fullu samræmi við grunnhugsun mannréttindaákvæða um friðhelgi einkalífs.

Við enn frekari samanburð má sjá að í 211. gr. almennra hegningarlaga segir að hver sem sviptir annan mann lífi skuli sæta fangelsi ekki skemur en fimm ár, eða ævilangt. Hér skiptir engu máli hvernig manndráp er framið. Líknarmorð eru einnig refsiverð. Í líkamsárásarmálum skipta afleiðingarnar einnig mestu máli varðandi sönnun en ekki verknaðaraðferðin.

Í nauðgunarmálum, sem sagt brotum gegn 194. gr. almennra hegningarlaga, er höfuðáherslan lögð á verknaðaraðferðina eins og áður hefur komið fram, sem sagt að ofbeldi hafi verið beitt, einhvers konar hótunum og annars konar ólögmætri nauðung. Ef ekki tekst að sanna að verknaðurinn hafi verið framinn, samkvæmt þessari verknaðarlýsingu, er ofbeldismanninum ekki refsað, jafnvel þótt allar tímabundnar og varanlegar andlegar afleiðingar nauðgunar, samkvæmt læknisfræðilegum skilgreiningum, hafi verið staðfestar og fullkomin sönnun, samkvæmt sönnunarreglum í opinberum málum, sé fram komin um að nauðgun hafi verið framin. Lagaákvæðið þrengir rammann mikið.

Þessi mismunun eftir ofbeldisbrotaflokkum og núgildandi nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga standast ekki mannréttindaákvæði um friðhelgi einkalífsins og er einn helsti hvati þess að þetta frumvarp er endurflutt ásamt því að réttarvörslukerfið gefur afleiðingum nauðgana afar lítinn gaum.

Við skulum þá fara aðeins yfir hverjar þessar afleiðingar geta verið. Í mars 2005 lýsti mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna yfir áhyggjum vegna ofbeldis gegn konum á Íslandi og þá sérstaklega vegna kynferðisofbeldis. Aðallega var kvartað yfir því hversu sjaldan var ákært í nauðgunarmálum miðað við fjölda kæra sem berast. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem áhyggjur af þessu tagi eru orðaðar varðandi íslenskt réttarkerfi. Ég ætla að vitna hér í orð finnsks sérfræðings mannréttindanefndar, með leyfi forseta:

„Voru allar þessar konur að ljúga eða höfðu yfirvöld engan áhuga? Voru skilaboðin til þessara kvenna þau að þær ættu ekki að tilkynna brotin til þess að forðast vandræði?“

Skýringarnar sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna fékk frá sendinefnd Íslands voru þær að sönnunarerfiðleikar þessara brota væru aðalhindrunin og ástæða þess hve mörg mál eru felld niður hjá lögreglu og ákæruvaldi. Það er staðreynd að í dómaframkvæmd í kynferðisbrotamálum hafa líkamlegir áverkar og líkamlegt ofbeldi mjög mikla þýðingu varðandi sönnun um ásetning. Ef hvorki vitni né ytri ummerki eru til staðar verður að byggja niðurstöðu á öðrum gögnum, svo sem trúverðugleika vitna og andlegum afleiðingum. Andlegar afleiðingar eru mun meiri, alvarlegri og varanlegri en hinar líkamlegu. Það eru beinlínis löglíkur á því að nauðgun hafi verið framin ef fyrir liggur að áliti sérfræðinga að þolandi hafi orðið fyrir slíku áfalli við kynmök og þau andlegu einkenni sem talin eru upp hér á eftir eru til staðar.

Í skýrslu nauðgunarmálanefndar frá 1989 kemur fram að 48% kvenna veittu enga mótspyrnu við nauðguninni en í 26% tilvika var mótspyrnan aðallega fólgin í því að reyna að verja sig og mótmæla verknaðinum. Aðeins fjórðungur kvenna veitti virka líkamlega mótspyrnu. Þá er greint frá því í skýrslunni að rúmur helmingur kvenna hlaut nánast enga líkamlega áverka og hjá um þriðjungi var um minni háttar sýnilega áverka að ræða. Umtalsverðir líkamlegir áverkar voru aðeins í um 10% tilvika.

Hvert á maður þá að leita með afleiðingar ef það er í mun færri tilvikum sem þær koma fram á líkama kvennanna, eins og sönnunarbyrðin segir til um í stöðu mála nú? Nú, þá leitar maður auðvitað í öðrum afleiðingum sem eru andlegar og mjög svo áþreifanlegar. Og við gerum þetta í kynferðisbrotum sem beinast gegn börnum. Þar er leitað sérfræðinga og þar hefur verið búinn til réttarrammi, þar eru kallaðir til óháðir sérfræðingar og þeir sitja jafnvel sem meðdómendur og skera úr um það hvort börn séu trúverðug eða ekki, hvort afleiðingar þessarar ofbeldisfullu árásar á barnið komi fram. Þær koma svo sannarlega fram í lífi barnsins, grundvelli er kippt undan lífi barns sem lendir í kynferðislegu ofbeldi, það er sannað og hefur margoft sýnt sig, sérstaklega ef það er endurtekið.

Í lýsingum kvenna af nauðgun eru margir þættir sameiginlegir. Í fyrsta lagi kemur nauðgunin þeim ávallt á óvart. Gerendur eru yfirleitt karlar sem þær þekkja, ýmist fjölskyldumeðlimur, vinur eða kunningi. Í aðeins 15% af þeim málum sem bárust til Stígamóta árið 2006 var gerandinn ókunnugur.

Þegar konur átta sig á aðstæðum kenna þær sjálfum sér oft um að hafa ekki séð aðstæðurnar fyrir og brugðist rétt við. Það er mjög einstaklingsbundið hvernig konur bregðast við árásinni en samkvæmt alþjóðlegum sjúkdómsgreiningaskrám er áfallið í kjölfar nauðgunar líkt því sem einstaklingar verða fyrir við stórfelldar náttúruhamfarir, stríðsátök og stórslys. Fyrstu viðbrögð þolenda nauðgana einkennast oft af doða, tómleika, óraunveruleikatilfinningu, brengluðu tímaskyni, spennu og öðrum áfallseinkennum. Það er erfitt fyrir þolendur að átta sig á hvað hafi gerst í raun og veru og frásögn þeirra af atburðinum er oftar en ekki samhengislaus. Algengt er að þessi eðlilegu viðbrögð við ofbeldinu séu fyrir dómi notuð sönnunarlega gegn þolandanum. Líkamleg viðbrögð, svo sem skjálfti, hraður hjartsláttur, kviðverkir, niðurgangur, ógleði, uppköst og svimi, eru mjög oft áberandi og geta valdið hræðslu og óöryggi. Eirðarleysi, grátköst og ótti sömuleiðis. Þessi fyrstu viðbrögð vara mörg hver oftast stutt og á þessum tíma geta tilfinningaviðbrögð verið frekar lítil og engan veginn í samræmi við aðstæður. Mörgum finnst þetta undarlegt og jafnvel óeðlilegt en þá ber að varast að draga of miklar ályktanir út frá því vegna þess að doðinn er tímabundin vörn gegn hugsunum og tilfinningum tengdum nauðguninni. Það er alveg ljóst að slíkar tímabundnar afleiðingar sem verið er að lýsa, og ég hugsa að allir hér geti tekið undir það, koma ekki fram í kjölfar sjálfviljugra kynmaka.

Þegar langtímaafleiðingar þolenda nauðgana eru skoðaðar kemur fram að skömm er langalgengasta afleiðingin og er einkennandi fyrir 85% þolenda kynferðisofbeldis samkvæmt ársskýrslu Stígamóta frá árinu 2006. Það útskýrir e.t.v. hvers vegna kært er í svo fáum nauðgunarmálum. Til samanburðar er reiði afleiðing í aðeins 55% tilvika. Þetta kann að koma á óvart vegna þess að þegar litið er til annarra afbrota kemur í ljós að reiði er algengustu viðbrögðin í 99% tilvika. Einkennandi fyrir þolendur er að kenna sjálfum sér um og varpa ábyrgðinni ekki á gerandann. Léleg sjálfsmynd, sektarkennd og depurð eru mjög algengar afleiðingar og koma fram í rúmlega 70% tilvika. Þunglyndi eftir nauðgun getur orðið langvarandi og leitt til kvíða, svefntruflana og einangrunar. Einnig er hætta á sjálfsvígstilraunum. Svipmyndir eru myndir og upplifanir tengdar kynferðisofbeldinu sem skjóta skyndilega upp kollinum án fyrirvara og valda miklu hugarangri.

Aðrar algengar afleiðingar eru ótti og tilfinningalegur doði sem lýsir sér stundum þannig að konur deyfa allar tilfinningar um þennan atburð til þess að komast af. Í mörgum tilvika koma fram alvarleg hegðunarvandamál, einbeitingarskortur og sjálfssköðun, t.d. er þekkt að konur skeri sig á handleggjum og fái átröskun sem hægt er að rekja til andlegs áfalls í kjölfar nauðgunar.

Þessi einkenni segja þó ekki alla söguna. Afleiðingarnar eru öllu alvarlegri til langs tíma litið. Sumir þolendur þróa með sér varanlegan sjúkdóm sem mótar alla tilveru þeirra og fjölskyldna þeirra til frambúðar. Stöðug spenna getur fylgt í kjölfarið og ef ekkert er að gert gefur sig eitthvað, líkamlegt eða andlegt. Fram hefur komið í viðtölum við sérfræðinga að 60–70% kvenna með geðraskanir og kvenna sem missa tök á lífi sínu, lenda til að mynda í neyslu fíkniefna og afbrotum, eiga að baki sögu um kynferðislegt ofbeldi. Komi þessar varanlegu afleiðingar fram er einsýnt að um nauðgun hafi verið að ræða. Hér verður einnig að halda því til haga að afleiðingar kynferðisofbeldis eru stærsta heilbrigðisvandamál heimsins sem snýr að konum.

Með frumvarpi þessu, um breytingu á 194. gr. almennra hegningarlaga, er lagt til að réttarvörslukerfið taki upp allt aðra hugsun og nálgun í kynferðisbrotamálum, að réttarvernd kynfrelsis verði lagalega tryggð, og þá verður einnig að umbylta rannsóknaraðferðum og sönnunarmati í málum sem varða brot gegn kynfrelsi og leggja megináherslu á verndarhagsmuni, tímabundnar og varanlegar andlegar afleiðingar og samþykki, allt í samræmi við grunnhugsun mannréttindaákvæða um friðhelgi einkalífs.

Ríkinu og stofnunum þess ber að tryggja að þessi brýnu einkalífsmannréttindi verði virk í reynd. Réttarvernd kynfrelsis er ekki tryggð núna og þær breytingar sem gerðar voru á 194. gr. almennra hegningarlaga á síðasta þingi breyta litlu um þau grundvallarsjónarmið sem hér hafa verið reifuð. Í frumvarpinu felast einnig skýr skilaboð til réttarvörslukerfisins um að taka nauðgunarmál sömu tökum og önnur ofbeldisbrot, eins og manndráp og líkamsárásir. Horfa þarf fyrst og síðast til afleiðinga nauðgana þótt auðvitað þurfi að fara fram heildstæð rannsókn og mat á öllum þáttum brotsins eins og gildir þegar manndráp og líkamsárásir eiga í hlut. Hér er sjónum réttarvörslukerfisins beint að sönnunargögnum sem það hefur vanrækt að afla í nauðgunarmálum.

Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að slakað sé á meginreglum opinbers réttarfars um sönnun, enda engin þörf á því til að ná fram sakfellingu ef réttra aðferða er gætt við rannsókn lögreglu og öflun sönnunargagna. Frumvarpið sýnir einnig þann vilja löggjafarvaldsins að dómstólar þyngi refsingar fyrir kynferðislegt ofbeldi með því að færa lágmarksrefsingu úr einu ári í tvö en dómstólar virðast vera tregir til að nýta núgildandi refsiramma.

Í athugasemdum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hefur komið fram að það sé áhyggjuefni í hve fáum nauðgunarmálum sé ákært hér á landi sem ítrekar enn frekar nauðsyn þess að lögfesta frumvarpið nú. Helgast það af þeirri staðreynd að kynbundið ofbeldi er talið aukast mjög verulega þegar þjóðir glíma við efnahagskreppu.

Ég óska því eftir því að málinu verði vísað til allsherjarnefndar og 2. umr. að lokinni umræðu.