139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[13:36]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir utandagskrárumræðu um þetta brýna vandamál eins og hann orðar það réttilega sem mestu vá okkar í dag, þ.e. hvernig staða heimilanna er og hvernig við komumst út úr þeim vandræðum. Ég get líka tekið undir þær tölulegu upplýsingar sem komu hér fram þar sem myndin er máluð réttum litum varðandi það hve stór hópur er í verulegum vandræðum.

Það sem hefur verið gert undanfarið til viðbótar við það sem hafði verið í gangi áður er þessi aðgerðahópur sem hv. þingmaður nefndi þar sem fimm ráðherrar og fulltrúar stjórnarandstöðu hafa verið kallaðir saman. Ég kalla þetta aðgerðahóp vegna þess að það er rétt sem hér hefur komið fram að ætlunin er að vinna málið áfram þangað til við finnum einhverja lausn sem er talin ásættanleg fyrir alla aðila, að það verði einhvers konar sátt um þá niðurstöðu.

Þessi hópur hefur fundað og kallað til ráðgjafa. Þrír ráðherrar úr þessum hópi hafa fundað með embættismönnum og þeim sem koma að málum og eins hafa verið haldnir stórir fundir í Þjóðmenningarhúsinu með fjórum nefndum þingsins þar sem lögð var áhersla á að þessi mál verði unnin í þinginu og dregin fram öll þau skjöl og gögn sem hafa verið lögð fram hér í umræðunni og tekið málefnalega á þeim og reynt að koma þeim aftur inn í þingið. Í gærkvöldi var fundur með fjármálafyrirtækjum, Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum og Hagsmunasamtökum heimilanna, umboðsmanni neytenda og umboðsmanni skuldara til að fara yfir stöðuna og kanna hvaða möguleikar væru varðandi einmitt þann þátt sem hv. þingmaður nefndi sem eru almennar leiðréttingar vegna þessa áfalls eða hruns sem varð á bankakerfinu.

Það sem þarf að vera skýrt og kemur líka fram í framsögu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar er að verkefni okkar er að verja heimilin, verja börnin og fjölskyldurnar. Að vísu skulum við átta okkur á því að allir sem eru búsettir á Íslandi eiga heimili. Það þýðir auðvitað að við ætlum að reyna að verja alla en ég vil hafa fókusinn hvað skýrast á barnafólk. Við þurfum að gæta okkar sérstaklega gagnvart yngra fólki því að það hefur einmitt komið fram á þessum fundum að þeir sem fara verst út úr hruninu eru þeir sem hafa tekið lán hvað síðast, það er aldurshópurinn 27–40 ára sem er með mjög stóran hluta af skuldunum og gríðarlega háar skuldir og það er ein af ástæðunum fyrir því að menn hafa sett spurningarmerki við hvort almenn úrræði ein og sér dugi. Ég vil þó hafa það með hér líka að hv. málshefjandi hefur vakið athygli á því og gerði það hér að þó að menn hafi oft talað um flatan niðurskurð hafa menn opnað á það að hægt sé að gera þetta með ýmsum öðrum hætti eins og að reyna að koma beinskeyttari aðgerðum til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda.

Hvernig sem við förum út úr þessu eru ákveðnir hlutir sem verða að gerast, við þurfum sértækar aðgerðir líka, og bankarnir verða að koma inn með fullum krafti og beita sértækum skuldaaðlögunum líka og þetta þarf að fara að virka. Þingið hefur í sjálfu sér skilað sínu en það hefur ekki tekist að koma því í framkvæmd. Þingið afgreiddi líka samhljóða embætti umboðsmanns skuldara, greiðsluaðlögunina og hvernig fara ætti með tvær eignir. Við þurfum að taka það skrefinu lengra og fylgja því eftir að þetta virki vegna þess að þó að við förum í flatan niðurskurð, eða ekki flatan heldur almennan niðurskurð, verður umtalsverður fjöldi sem þarf sértækar aðgerðir til viðbótar. Það kom mjög vel fram í þessum tölum þar sem 20% eru með skuldsetningu yfir eignastöðu og þar er mjög stór hópur með verulegar skuldir. Þetta úrræði er í sjálfu sér ágætlega hannað nema að það hefur ekki tekist að hraða afgreiðslu þar í gegn og varúðarsjónarmiðin um framkvæmdina á því hafa verið of mikil.

Þetta er það sem er í gangi og hefur verið gert. Ég vakti athygli á því, m.a. á fundinum í gærkvöldi og annars staðar, að við verðum líka að muna eftir hópnum sem í sjálfu sér skuldar ekki mjög mikið, er með litlar tekjur vegna atvinnuleysis, er með mjög lág laun eða er á bótum hjá sveitarfélögunum. Þessir aðilar standa ekki einu sinni undir lágum lánum, þeir munu ekki fá miklar niðurfærslur en þetta er hópurinn sem við þurfum líka að hjálpa og er ég þá ekkert að gera lítið úr því að við þurfum að fara í almennar aðgerðir.

Við þurfum líka að horfa á atvinnumálin eins og hér hefur komið fram. Þó að það hafi ekki verið mikið uppi á borðinu enn skulum við gera okkur grein fyrir því að einn aðalógnvaldurinn við stöðu heimilanna er auðvitað atvinnuleysið og að því leyti get ég tekið undir með þeim sem það hafa dregið fram. Við þurfum líka að horfa á þá sem eru einyrkjar og hafa átt mjög erfitt í þessari stöðu, eru með fyrirtæki, lítil fyrirtæki sem eru tengd heimilunum, og við þurfum að leysa þann vanda.

Ég fæ vonandi tækifæri seinna til að ræða það sem við þurfum að horfa á til framtíðar vegna þess að við þurfum að breyta mjög miklu í samfélaginu til að búa betur að heimilunum til lengri tíma, til þess að fara út frá þeim eignarsjónarmiðum sem hér hafa ríkt og þeirri hugmyndafræði sem hér hefur verið um skuldir og annað. En sameiginlega markmiðið er skýrt og það er rétt sem sagt var í framsögunni, við stöndum ekki upp frá þessu borði nú fyrr en við erum búin (Forseti hringir.) finna lausnina á þessu. Ég treysti á að allir þingmenn standi þar vel að verki.