139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[13:46]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Skuldavandi heimilanna er brýnasti vandinn sem vofir yfir í efnahagsmálum á Íslandi í dag. Eftir fjölmarga fundi með ráðherrum, svokölluðum fimmráðherrahóp, öðrum þingmönnum og nú síðast í gærkvöldi með hagsmunaaðilum, sem teljast vera fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður öðrum megin og Hagsmunasamtök heimilanna, umboðsmaður neytenda og umboðsmaður skuldara hinum megin, hefur enn ekkert komið fram sem bendir til að þessi vandinn verði leystur neitt öðruvísi en í þágu fjármálafyrirtækjanna. Eftir tvö ár frá hruni og eftir alla þessa fundi er ekki komin fram stefna ríkisstjórnar í málinu.

Að vísu hefur dómsmálaráðherra komið fram með tvö mikilvæg frumvörp til laga, annað um frestun uppboða en hitt um fyrningu krafna, og félags- og tryggingamálaráðherra hefur komið fram með frumvarp um að umsókn hjá umboðsmanni skuldara jafngildi skjóli fyrir aðför. Þetta eru frumvörp sem skipta vissulega máli en þau taka ekki á þeim vanda sem er undirliggjandi, þ.e. að koma í veg fyrir þörfina á þeim sömu lögum sem frumvörpin eru vísir að. Það þarf að koma í veg fyrir að fólk verði gjaldþrota og lendi með eigur sínar á uppboði eða lendi í viðvarandi greiðsluerfiðleikum vegna lána sem það tók í rauninni aldrei og vegna skulda sem forsendubresturinn hafði í för með sér. Annað er einfaldlega hróplegt óréttlæti.

Ég hef lýst eftir stefnu og forustu ríkisstjórnarinnar á öllum þessum fundum en fengið í staðinn fundarboð á næsta fund. Nú að loknum sex fundum og þar af tveimur sem á voru um eða yfir 30 manns er ríkisstjórnin enn stefnulaus. Lokaorð forsætisráðherra í gærkvöldi voru í þá veru að þó að fundarmenn væru ósammála væri mikilvægt að halda áfram að funda og jafnvel þó að þyrfti fimm fundi til viðbótar yrði að hafa það. Þetta eru lausnirnar. Það er einfaldlega ekki vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara í það sem kallað hefur verið almenn skuldaleiðrétting þar sem forsendubrestur lántakenda vegna gengisfalls krónunnar og verðbólguskotsins er leiðréttur. Það er hróplegt óréttlæti að ríkisstjórnin skuli ekki vilja leiðrétta þennan forsendubrest og algerlega forkastanlegt með hvaða hætti hún gengur endalaust (Forseti hringir.) áfram með hagsmuni fjármálafyrirtækja í huga.